144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

um fundarstjórn.

[17:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir hans atbeina í þessu máli og fyrir ágætan fund með þingflokksformönnum. Málið hefur nú skýrst að nokkru leyti, kannski í fyrsta lagi það að ekki var um lögformlega tillögu að ræða heldur þarf að halda sérstakan fund til þess að leggja slíka fram.

Það liggur líka fyrir að þingflokkar stjórnarflokkanna þurfa að funda um málið. Þar með liggur væntanlega fyrir að atvinnuveganefndin hafði ekki pólitískt umboð til að ganga fram með þessum hætti. Þá kemur væntanlega í ljós hvort svo verður, en ég fagna því sérstaklega að tillagan sem slík skuli í raun vera til endurskoðunar. Ég vona að ekki sé um að ræða eitthvert pólitískt leikrit, að þetta snúist ekki um að þyrla upp moldviðri hér í dag til þess síðan að setja málið í einhvern nýjan búning. Það kemur manni sannast sagna á óvart hvað sumir stjórnarliðar virtust vera hissa þar sem málið hafði verið til umfjöllunar í atvinnuveganefnd um margra vikna skeið. Ég vona auðvitað að þetta fari að minnsta kosti formlega farsællega þó að ég lýsi því yfir mjög eindregið að ég tel mikið óráð að þingið krukki með nokkru móti í tillögur (Forseti hringir.) sem koma fram frá ráðherra, eins og áður hefur komið fram í þessu efni.