144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

Haf- og vatnarannsóknir.

391. mál
[18:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég lít á þessar tvær stofnanir, Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun, sem algerar lykilstofnanir á sínum sviðum og báðar hafa yfir að ráða afburðafólki. Í báðum stofnunum er að finna vísindamenn sem skara fram úr á sínu sviði og þá er ég að tala um á erlenda vísu en ekki bara á hinn íslenska mælikvarða.

Ég segi það hins vegar algerlega skýrt að ég tel að hér sé verið að stíga rétt skref. Ég hef mjög lengi verið þeirrar skoðunar að þessar tvær stofnanir ættu að sameinast. Ég held að ég hafi fyrst viðrað þá hugsun einhvern tíma á 10. áratug síðustu aldar. Það er sjálfsagt að ég gangist við því líka að þegar ég tók þátt í því fyrir hönd míns flokks að mynda ríkisstjórn 2007 var lagður fram listi yfir nokkrar stofnanir sem ætti að skoða sameiningu á og þetta var m.a. mitt framlag inn í það. Það var skoðað í þaula á þeim tíma en náði ekki fram að ganga vegna þess að töluvert sterk andstaða kom frá Landssambandi veiðifélaga sem fann sér farveg í gegnum annan stjórnarflokkinn og af þessu varð ekki.

Það getur vel verið að sameining af þessu tagi muni þegar fram líða stundir færa með sér töluverða og að vissu leyti marktæka samlegð og hagræðingu að því er varðar fjármuni, meðferð þeirra og húsakost og það er auðvitað vel. En reynsla mín er samt sú að það tekur langan tíma að koma fram. Það sem ég held að skipti mestu máli er að skapast mun samlegð og þróttur af sameiningu þessara tveggja fræðasviða. Ég held að þegar stofnanirnar slípast saman muni það efla báðar; það mun efla hafrannsóknir en ég er einnig algerlega sannfærður um að samruni þessara tveggja stofnana mun ekki síður og jafnvel miklu frekar verða styrkur fyrir Veiðimálastofnun. Vissulega má segja með gildum rökum að Hafró hafi borið skarðan hlut frá borði á síðustu árum vegna þrenginga í hagkerfi okkar, en mér hefur fundist Veiðimálastofnun hafa þurft miklu lengur að búa við ákaflega þröngan kost. Staðreyndin er sú að hún hefur í æ ríkari mæli þurft að reiða sig á sértekjur. Það hefur aftur þýtt, svo ég leyfi mér út frá mínum persónulegu áhugamálum að orða það þannig, að hún hefur þurft að eltast við þetta laxadekur, sem vissulega skiptir mjög miklu máli en hefur gert að verkum að ýmislegt annað í lífríki íslenskra vatna hefur ekki verið rannsakað með nægilega miklum þrótti eins og ég hefði viljað vera láta. Það hefur ekki stafað af skorti á vilja hjá Veiðimálastofnun, þvert á móti. Miklu fremur er það að menn hafi þurft að afla sértekna og það hafa þeir gert með því að vinna þjónusturannsóknir fyrir hvers kyns veiðifélög. Síst ber að sýta það. Það er atvinnugrein sem þegar allt er talið veltir 20 milljörðum í okkar samfélagi. En ég vil bara segja það sem mína skoðun að ég tel að þetta verði lyftistöng fyrir vísindalegar rannsóknir beggja stofnana og þá ekki síst Veiðimálastofnunar.

Að því er varðar frumvarpið sjálft er ég sömuleiðis þeirrar skoðunar að ákveðinn ávinningur sé í því að það er tiltölulega létt í hendi og ekki mikið umleikis. Ég les saman markmiðsgreinina, sem er 2. gr., og 5. gr., sem er kannski lykilgrein í þessu þar sem talin eru upp hin ýmsu hlutverk stofnunarinnar, og síðan 6. gr. Þar er talað um samstarf við háskóla og rannsóknastofnanir. Ég dró þá ályktun þegar ég las þetta og sá að það var ekkert verið að reisa nein sérstök landamæri á millum stofnana eða ráðuneyta í þessum efnum, að það væri með vilja gert. Í dag eru rannsóknastofnanir orðnar svo samþættaðar með ýmsu móti, þótt þær kunni að eiga vist hjá mismunandi ráðuneytum, að ekki má draga of skýrar markalínur þarna á milli.

Ég tek sem dæmi að hjá Matís er bæði þekking og atgervi til að vinna mjög merkar erfðarannsóknir á grundvelli nýrrar tækni sem hefur fleygt fram á síðustu árum, sem er mjög þörf fyrir þann hluta hinnar nýju stofnunar sem lýtur að rannsókn fiskstofna í hafi og er líka mikil þörf á því að beita gagnvart fiskstofnum í ferskvatni. Ég segi: Ég er algerlega sannfærður um að það á eftir að verða partur af hinum fræðilega grunni undir ráðgjöf í framtíðinni að skoða út frá sjónarhóli erfða hvar fiskstofnar liggja og hvort þeir séu ekki í töluvert meira mæli, a.m.k. sumir, staðbundnari en við skiljum í dag. Það mun gera okkur kleift að vera með nákvæmari ráðgjöf. Ég nefni þetta sem dæmi vegna þess að sérþekkingin til þess liggur utan vébanda beggja þessara stofnana. Þess vegna finnst mér ágætt að kveða skýrt á um það að eitt af markmiðum frumvarpsins er að efla samstarf hinnar nýju stofnunar við háskóla og rannsóknastofnanir án þess að segja endilega með hvers konar hætti eða draga sérstakar markalínur. Þarna verða vísindamennirnir að hafa frelsi til að finna sjálfir hvernig þeir vilja efla samvinnuna. Ég tel að að því leyti sé verið að stíga nær hinu akademíska andrúmslofti háskólanna þar sem menn fá að leyfa sínum hugarhesti að leika nokkuð villtum um lendur vísindanna. Ég tel að það sé til þess fallið að örva nýsköpun og örva nýjar hugmyndir.

Ef ég kem þá að því sem ég finn að við þetta frumvarp er það tvennt. Annað er stærra og er svipað því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér áðan. Ég hef, eins og hæstv. ráðherra veit, verið þeirrar skoðunar um mjög langa hríð að skilja eigi á milli eftirlits og mats á auðlindum annars vegar og hins vegar ákvarðana um nýtingu þeirra. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það sé meira en einnar messu virði að skoða til hlítar hvort stofnun af þessu tagi eigi að vera vistuð undir auðlindaráðuneytinu. Þetta er skoðun sem mörgum sinnum hefur verið viðruð, á sínum tíma m.a. með þeim rökum að Hafró væri undir allt of sterkum áhrifum frá útgerðinni. Það gladdi mig að minnsta kosti að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var sömu skoðunar en hingað til hefur þetta verið minnihlutasjónarmið í þessum þingsal. Þetta er mál sem þyrfti að skoða rækilega en breytir ekki hinu að sameining þessara stofnana er góð.

Ég vil síðan drepa á hið síðara atriði sem ég teldi að þyrfti að skoða svolítið betur. Það segir frá því í 7. gr. að þann hluta hinnar nýju stofnunar sem rekinn er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði eigi að skilja fjárhagslega frá öðrum þáttum rekstrar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við ræðum það varðandi þessi svið, a.m.k. að því er snertir Veiðimálastofnun, og ég held að ekki muni duga að gera þetta svona. Ég tel að skoða eigi hvort setja eigi þann þátt sem er beinlínis rekinn á viðskiptalegum grundvelli í sérstakt félag. Það er eitt af því sem nefndin ætti að skoða. Þar með er komið í veg fyrir árekstra og þær athugasemdir sem gerðar hafa verið. Ef ég man rétt þá hafa þær líka verið gerðar af eftirlitsstofnunum.

Varðandi það sem sagt er um hlutverk stofnunarinnar er ýmislegt sem mætti kannski bæta þar við. Ég hef til að mynda alltaf verið þeirrar skoðunar að þegar menn skoða vistfræði sjávar verði þeir að horfa mjög glöggt á sjófuglastofna sem eru miklir og taka mikið til sín og ríkt samspil milli þeirra og ýmissa nytjastofna í hafinu. Þeirra er hér hvergi getið en ég lít svo á að það sem segir í 4. gr., að meðal annars eigi að rannsaka vistfræðitengsl hinna ýmsu samfélaga, taki yfir hluti eins og þetta. Ég lít þó á það sem skavanka að þetta skuli ekki vera harðar í gadda slegið.

Ég tók líka eftir því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi um 15. tölulið 5. gr. Mér finnst það nokkuð umhendis að þetta eigi að vera orðið hlutverk stofnunarinnar. Ég tel að þetta sé nú þegar á verksviði annarrar stofnunar.

Ég bendi síðan á að þegar talað er um samstarf við háskóla og rannsóknastofnanir finnst mér að taka ætti þar inn líka sjálfstætt starfandi vísindamenn. Þeir eru ekki margir en þeir eru til og vinna prýðilegt starf. Ég er reyndar þeirrar skoðunar og við áttum reglulega umræður um það fyrir allmörgum árum, ýmsir þingmenn, þar á meðal fyrrverandi félagi okkar Einar Oddur Kristjánsson sem var mér ákaflega sammála um þetta, m.a. vegna þess að samvinna við sjálfstætt starfandi fræðimenn opnar dyr þessara stofnana og hleypa þannig nýrri hugsun inn. Oft grefur um sig ákveðin stofnanahugsun í stórum batteríum af þessu tagi og ég tel að það sé a.m.k. þess virði að skoða hvort ekki ætti að taka þetta sérstaklega inn í frumvarpið.

Að því er varðar síðan hina sífelldu hættu sem jafnan er nefnd þegar samruni þessara tveggja stofnana er til umræðu, þ.e. að hin stóra gleypi hina minni, þá segi ég það fyrir mína parta að eins og ráðgjafarnefndin er sett upp finnst mér að hún bægi kannski þeim háska frá. Nú veit maður ekki hvaða hlutverk nefnd af þessu tagi mun leika varðandi hina nýju stofnun. Það fer allt eftir því hvaða vald hún tekur sér sjálf og hvað hún er frek til fjörsins en ég sé að þar er fulltrúi fiskeldisstöðva, stangveiðimanna og veiðifélaga þannig að allgildur hlutur þessarar níu manna ráðgjafarnefndar kemur úr þeim geira sem tengist ferskvatnsfiskum. Þeir ættu að vera í stakk búnir til að sjá til þess að áherslurnar sem ferskvatnstegundum tengjast verði ekki fyrir borð bornar.

Að öllu þessu sögðu og með þeim fyrirvörum sem ég hef hér rakið ítreka ég að ég tel að skrefið sem er stigið með því að þætta þessar tvær stofnanir saman sé jákvætt og farsælt fyrir báðar.