144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er í sjálfu sér mjög góð spurning hjá hv. þingmanni. Ég held að það sé afar mikilvægt að Alþingi, löggjafinn, byggi alltaf sínar ákvarðanir í þessum efnum á bestu fáanlegu upplýsingum og reyni að undirbyggja ákvarðanirnar, ef þess þarf, einfaldlega með rannsóknum og viðbótarskoðun hlutanna. Við getum tekið mjög nálægt dæmi í þessu máli sem er neyslugrunnur og könnun Hagstofunnar sem byggir á litlu úrtaki. Hagstofan hefur hvorki næga fjármuni né mannafla til að gera þetta eins vel og mögulegt væri. Hver er niðurstaðan? Hún er meðal annars sú að til þess að fá marktækni í mælingarnar er tekið þriggja ára meðaltal sem er auðvitað ekki gott. Allir sem eitthvað vita um tölfræði sjá að það er ekki gott að setja saman upplýsingar sem koma af þriggja ára tímabili. En það er vegna þess að við höfum takmarkaðan grunn til að byggja á. Á þessu hanga útreikningarnir um hvernig þetta komi út fyrir einstaka hópa.

Ég held hins vegar að við getum gefið okkur ákveðnar og einfaldar staðreyndir. Hv. þingmaður nefndi auðvitað eina þeirra. Það komast engir af án matar. Horfum þá á samfélagið og hvernig það er í nútímanum. Það er ekki lengur þannig að stór hluti landsmanna sé í mikilli aðstöðu til sjálfsafla í þeim efnum eins og var áður í sjómanna- og bændasamfélaginu þar sem menn gátu talsvert aflað sinnar eigin fæðu, ræktað sínar kartöflur og sótt sér fisk í sjóinn o.s.frv. Langstærstur hluti neytenda á Íslandi í dag verður að kaupa nánast allan sinn mat af öðrum. Það eru staðreyndir sem við þurfum að hafa í huga. Þetta er óumflýjanlegur útgjaldaþáttur sem ekkert heimili kemst af án.

Ýmsum öðrum hlutum er eftir atvikum hægt að fresta eða reyna að leysa með ódýrari hætti en kannski þeim að (Forseti hringir.) kaupa hið dýrasta dýrt eða nýjasta nýtt eins og mér finnst stundum (Forseti hringir.) stjórnarliða tala þegar þeir básúna það hvað það verði gott (Forseti hringir.) fyrir menn að verð á flatskjáum eða stórum frystiskápum (Forseti hringir.) skuli lækka.