144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt að taka þarf rökræðuna á hverjum tíma um það hvað er undanþegið virðisaukaskatti, hvað er þannig sett gagnvart virðisaukaskatti að menn fá innskattinn beinlínis endurgreiddan úr ríkissjóði þannig að þeir bera engan virðisaukaskatt. Síðan eru allmörg svið sem eru undanþegin virðisaukaskatti, þ.e. það er ekki lagður virðisaukaskattur á sölu vörunnar eða þjónustunnar á endanum, en menn borga hins vegar og sitja uppi með innskattinn á aðföngum, það er kallað að éta vaskinn. Síðan erum við með tvö þrep, lægra þrep og efra þrep. Grunnhugsunin er að sjálfsögðu sú að við höfum í lægra þrepinu ýmsa starfsemi sem við viljum styðja eða beita þannig að það sé hagstæðara en ella væri; matvælin, menningin og annað sem við höfum orðið sammála um.

Ég er út af fyrir sig sammála því að ástæða getur verið til að fara yfir það hvað er beinlínis í undanþágum. Það er að hluta til verið að laga það aðeins núna með því að taka afþreyinguna í ferðaþjónustuna undir virðisaukaskatt í lægra þrep, löngu tímabært. Svo er líka hægt að hugsa sér að við (Forseti hringir.) tökum meðvitaða ákvörðun um að undanskilja einhver svið virðisaukaskatti eins og fjármálaþjónustu (Forseti hringir.) en látum hana borga annars konar skatt í staðinn, (Forseti hringir.) t.d. fjársýsluskatt.