144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. efnahags- og viðskiptanefnd eigi að taka þetta mál inn milli umræðna og skoða þá ofan í kjölinn og teikna upp þær sviðsmyndir hvað það þýðir að hafa óbreytt ástand hvað varðar bókaútgáfu og tónlist og að fara í 0% og hvaða áhrif það hefur, endurgreiðslan á kostnaðarliðum sem hér hefur verið nefnd sem hugsanlega gæti orðið til þess að jafnvel sé betra að vera áfram í 7% með hana. Ég held að hv. nefnd eigi að nýta þetta tækifæri. Ég heyri ekki betur en að meiri hluti sé fyrir því, út frá því hvernig hv. þingmenn Framsóknarflokksins ræddu áðan um bókmenntir og læsi við hv. þm. Guðmund Steingrímsson heyri ég ekki betur en það sé meiri hluti fyrir því að skoða þessa geira sérstaklega. Þeir geta gert það milli umræðna. Ég held ekki að um stórar upphæðir sé að ræða fyrir ríkissjóð en hér geta orðið gríðarlega afdrifaríkar aðgerðir sem ég tel að hv. nefnd hafi fullt færi til að skoða milli umræðna. (Forseti hringir.) Ég heyri ekki betur en það sé líka vilji til þess hjá þingmönnum meiri hlutans.