144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það þarf að hafa mörg sjónarmið í huga í þessu. Nú erum við þannig stödd í okkar landi norður undir heimskautsbaug að við erum mjög háð öðrum þjóðum um fæðuöryggi. Við flytjum inn rúmlega 50% af fæðuþörf þjóðarinnar vegna þess að hér er auðvitað ekki kornrækt og ávaxtaframleiðsla og annað í þeim dúr sem er nauðsynlegt til matvælaframleiðslu. Að sjálfsögðu skiptir miklu máli að fá það fyrst á hreint hvort pólitískur stuðningur er við að styðja við sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar og sjálfbærni að þessu leyti með því að treysta stoðir þeirrar matvælaframleiðslu sem þó er hér. Ég er eindregið þeirrar skoðunar. Þá koma margar leiðir til greina. Vissulega er ein þeirra sú að hverfa frá fyrirkomulagi tollverndar sem tók við af beinum innflutningsbönnum á sínum tíma og færa það yfir í beina styrki.

Menn nefna oft dæmið um garðyrkjuna þar sem tollverndin var í raun og veru að mestu leyti fjarlægð á sínum tíma en sömu menn sem hampa því sem vel heppnuðu fordæmi gleyma því gjarnan að garðyrkjan fékk í staðinn stuðning, samning um stuðning frá ríkinu sem núna leggur sig á um hálfan milljarð kr. Það hefur jú gengið ágætlega, en það er vegna þess að menn mættu garðyrkjunni á móti með umtalsverðum beinum fjárstuðningi.

Varðandi skýrslugerð í þessum efnum og útreikninga þá las ég þessa skýrslu og hef yfirleitt sett mig inn í flest það sem hefur komið fram um þessi mál. Svo mikið man ég að í mörgum þessara útreikningsæfingum fengu menn ótrúlega háar tölur um ávinninginn af því að opna fyrir innflutning og fella niður tolla af þeim mjög afmarkaða hluta matvælainnflutnings til landsins sem ber einhverja tolla, sem er fyrst og fremst samkeppnisvara við innlendu framleiðsluna og nemur um 4 milljörðum ef ég man rétt. Ein af forsendunum sem menn gáfu sér gjarnan í útreikningum var að heimsmarkaðsverð mundi skila sér upp á krónu til neytenda á Íslandi.

Ég spyr: Hvers vegna ætti það að gera það frekar í tilviki viðkvæmrar vöru eins og matvæla þegar heimsmarkaðsverð skilar sér ekki betur en raun ber vitni þegar í (Forseti hringir.) hlut eiga rafmagnstæki, föt, skór eða eitthvað annað?