144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru tvö atriði sem mig langar að beina til hv. þingmanns. Ég er hjartanlega sammála honum um stöðu tungunnar. Hann nefndi kvikmyndir í ræðu sinni og þá getum við fært okkur til þess sem ég hef gert að umtalsefni hér í dag, sem er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að styrkja stöðu hinna skapandi greina. Hv. þingmaður kom sérstaklega inn á tækniframfarir og í hvaða vanda sá geiri sem byggir á hugviti hefur lent með auknum tækniframförum og möguleikum til að miðla efni. Að sama skapi hefur það reynst erfitt fyrir listamenn sérstaklega að fá greitt fyrir vinnu sína.

Við hv. þingmaður ræddum ekki sérstaklega tónlistina, en borist hefur umsögn frá fulltrúum tónlistarmanna um þetta frumvarp þar sem þeir benda á að tónlistargeirinn hafi átt undir högg að sækja vegna þessa umhverfis þar sem tónlist er dreift án þess að greitt sé fyrir hana, í og með vegna þess að lögmætir kostir hafa verið miklu verri fyrir neytendur en hinir ólögmætu, svo að það sé sagt. Sú aðgerð að hækka virðisaukaskatt á tónlist kemur eins og enn eitt höggið á þennan geira. Mig langar aðeins að heyra hv. þingmann reifa þau mál.

Að lokum langar mig að spyrja hann um matarskattinn og hvað henn telji um framtíðina í þeim efnum. Í fyrsta lagi er verið að hækka virðisaukaskatt á matvæli, þó að það sé verið að hækka hann pínulítið minna en menn ætluðu í upphafi, en við höfum líka fyrirætlanir um að setja allan virðisaukaskatt í eitt þrep. Það þýðir að matarskattur verður hækkaður meira ásamt bókaskattinum og tónlistarskattinum og því öllu á næsta ári. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji það ásættanlega fórn fyrir einföldun á skattkerfinu að hækka svona mikið skattinn annars vegar á nauðsynjavörum almennings í landinu og hins vegar á menningu sem skiptir okkur svo (Forseti hringir.) ósegjanlega miklu máli.