144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:18]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða og efnisríka ræðu. Það er ánægjulegt að nú sé kominn þingmaður úr stjórnarliðinu í salinn til að fylgjast með umræðunni.

Hv. þingmaður rakti mjög vel í ræðu sinni þá tilvistarspurningu sem maður stendur frammi fyrir þegar maður hefur ekki mikið milli handanna og þarf að velja í hvað á að verja takmörkuðu fé til matarkaupa. Ég hef reynslu af því frá því að ég var ungur maður að reyna að sjá fyrir fjölskyldu með engar tekjur. Það var snúin tilvist þó að maður ætti góða að að reyna einhvern veginn að láta þetta ganga eftir. Maður var mjög útfarinn í því að finna mettandi mat sem ekki kostaði mikið.

Á sama tíma vara núna allir sérfræðingar okkur við því að úrvalið af unninni og óhollri matvöru sé sífellt að verða meira og meira. Við sjáum að þessi þróun hefur líka átt sér stað, eins og hv. þingmaður nefndi, í skólamötuneytum þar sem það er orðið erfiðara og erfiðara út frá því hversu naumt er skammtað til matarkaupa að ná heilnæmri matvöru til að vinna úr boðlegar máltíðir. Ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann aðeins frekar út í áhyggjur hennar af þessum þætti. Hvernig sér hún þessa þróun? Ísland er land þar sem matvæli eru hvað dýrust í heimi og því er svolítið sérstakt að sjá ríkisstjórn setja það sem forgangsverkefni að hækka þau, þó svo að hún geti lækkað eitthvað allt annað á móti eins og ísskápa og nuddpotta.