144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mér finnst umræðan hér í dag hafa verið góð. Ég tek samt undir með þeim þingmönnum sem hafa sagt að það sé einkennilegt að stjórnarmeirihlutinn taki svo lítinn þátt í umræðunni sem raun ber vitni.

Það á sem sagt að einfalda, eins og sagt er, virðisaukaskattskerfið og gera það skilvirkara. Það er eitt markmiðið með þessum lögum. Og hvað er átt við með því að virðisaukskattskerfið verði skilvirkara? Jú, það er að reyna að koma í veg fyrir undanskot. Það er fyrst og fremst þannig sem ég skil það að virðisaukaskattskerfið sé skilvirkt, að þar séu lítil undanskot. Þá segja menn: Já, þess vegna er náttúrlega best að það sé bara eitt þrep og best að allt sé skattlagt eins. Þá eru menn ekki að reyna að komast í eitthvert lægra þrep og hreyfa sig þar á milli.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg óraunhæft, sannast að segja, að tala um það. Það er vegna þess að við búum ekki í teknókratíu, við búum í þjóðfélagi þar sem hlutirnir eru ekki alltaf eins og hagfræðingar eða vélsmiðir telja best að þeir séu. Við erum í pólitík og ég ætla ekkert að hætta að vera þeirrar skoðunar, þrátt fyrir einhverjar hagfræðikenningar um að virðisaukaskatturinn skili sér betur ef það er bara eitt þrep, að sumt eigi að bera lægri virðisauka en annað og sumt eigi jafnvel ekki að bera neinn virðisaukaskatt. Það er mín skoðun.

Það að vera með eitt þrep sem er 11% og annað sem er 24%, ég held að það geri ekki gæfumuninn um það að kerfið verði skilvirkara en kerfi með eitt þrep sem er 7% og annað sem er 24%. En það er nefnilega það sem er verið að gera hér, þetta er sem sagt í anda ríkisstjórnarinnar, það er verið að lækka skatta. Gott og vel, og af hverju er verið að því? Af því að skattar hækkuðu svo mikið á síðasta kjörtímabili, segja þeir. Já, vissulega hækkuðu skattar mikið á síðasta kjörtímabili en af hverju var það? Ríkissjóður var á barmi gjaldþrots og þá verðum við, fólkið í landinu, að setja peninga inn í hann og það gerum við með sköttum. Þess vegna þurfti til dæmis að fara með virðisaukaskattinn upp í 25,5%. Það hafði enginn gaman af því en það var ill nauðsyn.

Nú á að lækka það aftur og því ber að fagna. Það á að taka af vörugjöldin og því ber að fanga. En fyrir það á að borga með hækkuðum matarskatti, fyrir þetta og fleira. Það hefði verið hægt að gera þetta allt — það er verið að afnema auðlegðarskattinn á næsta ári. Hann gefur 10 milljarða á þessu ári. Menn segja: Það voru gallar á auðlegðarskattinum. Það hefði verið hægt að laga það. Það hefði verið hægt að laga auðlegðarskattinn þannig að hinir miklu gallar yrðu ekki til staðar. Þeir eru helstir, að því er mér skilst, að fólk, aðallega eldra fólk, þurfti að borga auðlegðarskatt af því að það átti stórt húsnæði og svona. Það hefði verið hægt að lagfæra það. Nei, nei, það á ekki að gera það, það á að afsala sér þar 10 milljörðum.

Hvað er þessi ríkisstjórn búin að afsala sér miklu í veiðigjöldum? Það er komið upp í nokkra milljarða. Ég held að þegar allt er talið til séu menn búnir að afsala sér upp undir 30 milljörðum af tekjustofnum sem voru komnir á. Auðvitað hefði verið hægt að lækka það eitthvað eða nota þær tekjur til að afnema vörugjöldin, til að lækka virðisaukaskattsþrepið kannski niður í 23,5% en ekki bara niður í 24%, við skulum ekki um það segja. En viljinn er nefnilega ekki til þess. Viljinn hjá þessari ríkisstjórn er ekki til þess. Vilji ríkisstjórnarinnar er að lækka álögur á þá sem betra hafa það, á stórútgerðina, og láta þá sem minna mega sín borga fyrir það.

Virðulegi forseti. Það er alveg sama hve mikið er talað um að við séum ekki með nógu mikil gögn og ekki nógu góð gögn og svona. Við erum með ágæt gögn, þau gætu verið betri, þau geta væntanlega alltaf verið betri. En það þarf enga sérstaka doðranta af gögnum til að átta sig á því að mestur hluti tekna þeirra sem lægst hafa launin fer í mat. Og ef maturinn hækkar þá bitnar það fyrst og fremst á því fólki.

Að leyfa sér svo að koma hér og segja að það séu mótvægisaðgerðir að lækka um 3,5 milljarða vörugjöld á vörum sem fólk kaupir á tíu ára fresti á meðan verið er að hækka gjöld á vöru sem fólk kaupir á hverjum einasta degi, sem fólk getur ekki lifað án. Virðulegi forseti, mér finnst þetta nánast ósvífni.

Tökum svo sykurskattinn sem á að afnema. Ein alvarlegasta heilbrigðisógn á Vesturlöndum er offita, yfirþyngd, og alls staðar er varað við þessu. Þá koma klárir Íslendingar og taka af hærri gjöld sem voru á þessum óhollu vörum. Þá koma einhverjir og segja: Í þeim flokkum eru líka einhverjar vörur sem eru hollar. Nú, förum þá í gegnum það og tökum þessar hollu vörur út úr sykurskattinum, ef þær eru einhverjar, ef því er haldið fram. Þá tökum við það bara út, lagfærum það, en afnemum það ekki á þessu stigi og láta fólk svo borga fyrir það afnám upp á 3 milljarða með nauðsynjum; hækka verð á ávöxtum, hækka verð á grænmeti, hækka verð á fiski, hækka verð á þessu öllu. Þetta er næstum því til skammar, virðulegi forseti.

Hér er verið að taka inn ný atriði sem eiga að bera virðisaukaskatt, ferðaþjónustan á að koma inn í virðisaukaskattskerfið. Það er gott, hefði mátt vera fyrr, en það er gott að það gerist núna. Eftir því sem ég skil þau nýju verkefni, ef svo má að orði komast, munu farþegaflutningar sem eru þá skemmtiferðir einhvers konar til dæmis koma þar inn; það mun ekki taka gildi fyrr en 1. janúar 2016, að því er mér skilst. Hins vegar mun virðisaukaskatturinn á gistingu hækka strax. Það er kannski rétt að rifja upp þau skrípalæti, það er nánast hægt að kalla það það, sem verið hafa með virðisaukaskatt á gistingu. Ríkisstjórninni lá svo mikið á að afnema hann að hún tapaði þar nokkrum milljörðum. Samt hafði hann verið settur á með góðum fyrirvara. Núna er hægt að hækka hann eins og skot úr 7% í 11% og allt það fólk sem hv. þingmaður hér á undan mér vitnaði í í ræðum sumarið 2013 lætur ekkert í sér heyra um að þetta eigi allt að gerast með nokkurra vikna fyrirvara.

Virðulegi forseti. Mig langar líka að benda á aðra mótvægisaðgerð sem hér er talað um eða breytingu sem við heyrum um að gera eigi á barnabótum, að hækka þær um 1 milljarð, fara með þær upp í 11 milljarða á næsta ári. Þessi hækkun er ekki meiri en svo að þá verða barnabæturnar áþekkar því sem þær voru árið 2013, vegna þess að þessi ríkisstjórn lækkaði þær líka. Þar sá hún tækifæri til að lækka. Ég veit ekki hvernig hv. formaður fjárlaganefndar ætlar að útskýra það fyrir okkur en hún hélt hér fjálglegar ræður í síðustu viku um hve ánægjulegt væri hve hagsældin væri orðin miklu meiri af því að fólk þyrfti ekki þær barnabætur sem höfðu verið áætlaðar fyrir árið 2014, og þess vegna voru barnabætur lækkaðar um 300 milljónir í fjáraukalögunum. Þetta var allt saman vegna þess að það væri svo ánægjulegt að nú væri fólk orðið miklu tekjuhærra en áður og þess vegna þyrfti ekki að nota bæturnar. Nú allt í einu á samt sem áður að bæta þarna milljarði inn.

Það er líka það sem mér finnst svolítið erfitt í þessari umræðu allri saman að það stendur bara ekki steinn yfir steini. Það var til dæmis allt í einu orðin lækkun þegar ákveðið var að hækka virðisaukaskattinn ekki upp í 12% heldur upp í 11%, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur lýst hér ágætlega. Það stóð í fjárlagafrumvarpinu að skatturinn ætti að vera 11% en svo hefur líklega verið prentvilla á einhverri glæru um að hann ætti að vera 12%. Þá allt í einu fann hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar það út að þessi lækkun mundi skila fólkinu í landinu 2 til 3 milljörðum. Það er bara grín að bjóða okkur upp á svona málflutning, virðulegi forseti.

Mig langar að minnast aðeins á menninguna, bókaútgáfuna og tónlistina; ég ætla kannski aðallega að fjalla um bókaútgáfuna. Á tyllidögum erum við alltaf svo mikil bókmenntaþjóð og tölum um það. Af hverju eigum við þá miklu sögu sem við eigum? Ritlist var hér í hávegum höfð og er hluti af þjóðararfi okkar og hluti af því að við höldum tungunni, sem er líklega það sem gerir okkur helst að þjóð, þ.e. að tala íslensku.

Samt sem áður berum við enga virðingu fyrir því sem gert er í bókaútgáfu. Þá á ég við að nú er allt í lagi að hækka virðisaukaskatt á bækur, sem mun klárlega koma niður á bókaútgáfu í landinu. Það kom fram í andsvörum áðan að á móti því að stærstu fyrirtækin fari kannski að borga 50 til 60 milljónir í hækkun á virðisaukaskatti þá á að hækka Bókasafnssjóð rithöfunda um 15 milljónir. Ég held að rétt sé með það farið hjá mér að sá póstur í fjárlagafrumvarpinu hefur lækkað og mér fannst það leiðinlegt þegar mér var bent á það. Hann hefur lækkað á undanförnum árum og við höfum ekki verið nógu dugleg við að bæta inn í hann.

Við erum alls ekkert hrædd við að styrkja aðra atvinnuvegi. Við gerum samninga um mjög lágt rafmagnsverð þannig að hér byggjast upp álver. Fyrir hundruð milljarða ætlum við að hjálpa til við uppbyggingu á Bakka á Húsavík til að auka þar við atvinnu. En þegar kemur að bókaútgáfu þá er allt í einu ekki hægt að gera neitt. Svo mun það gerast að skólabækurnar hækka og þetta gerir allt heimilunum í landinu mun erfiðara fyrir. Á sama tíma og við gerum breytingar ætlum við að enda á því að setja ekki virðisaukaskatt á laxveiði. Það er nú enn einn gullmolinn í þessu.

Mig langar bara rétt í lokin að minnast hugmyndar sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir lagði fram, sem mér finnst mjög merkileg; að við hugum að því hvort ekki megi setja virðisaukaskatt á sölu og leigu á kvóta, sem við vitum að gæti munað verulega um. Ég tek undir það með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að það er eiginlega ótrúlegt að engum hafi dottið þetta í hug fyrr.

Virðulegi forseti. Ég held að ég lengi þetta ekkert frekar en orðið er. Ég held að ég hafi komið því sem ég er hneyksluðust á á framfæri hér — því sem ég er hneyksluðust á, en ég er líka hneyksluð á mörgu öðru í þessu frumvarpi.