144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég held að það væri alveg þess virði að láta athuga það hvað mætti hafa upp úr því að setja virðisaukaskatt á þjónustugjöld í bönkum. Ég segi samt, virðulegi forseti, að það þurfi þá kannski aðeins að athuga hvaða þjónustugjöld er verið að tala um. Mér finnst við vera farin að sjá mest um okkar bankaþjónustu sjálf í heimabanka en svo eru aðrir, og þá kannski sérstaklega eldra fólk, sem gera það ekki. Erum við að tala um slík gjöld eða erum við að tala um virðisaukaskatt af lántökugjöldum eða hvað? Ég átta mig ekki alveg á hvað við erum nákvæmlega að tala um, en mér finnst alveg sjálfsagt að líta til þessa.

Ég segi líka að ég var þeirrar skoðunar þegar virðisaukaskatturinn var settur á, þegar við samþykktum að setja 14% virðisaukaskatt á gistingu, að hann ætti að vera 25,5%, ég segi það alveg eins og er. Ég tel að við eigum þá að huga að því hvort það séu þá ekki aðrir þættir í ferðaþjónustunni sem eiga að bera fullan virðisaukaskatt. Við verðum að átta okkur á því af hverju þetta var undanþegið virðisaukaskatti. Það var til að reyna að hjálpa atvinnugreininni að stækka og verða til. Nú er hún orðin svo stór að fólkið lætur sér detta í hug eitthvert skemmtiatriði sem heitir náttúrupassi, sem allir (Forseti hringir.) eiga að ganga með á sér. Þá held ég að nær sé (Forseti hringir.) að hækka virðisaukaskattinn á gistingu.