144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Þetta kom fram hér í umræðunni í dag og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir vitnaði í skýrslu sem ég hef ekki séð eða lesið sem í voru magnaðar niðurstöður, bæði um sykurneyslu og áhrif sykurs.

Í allri umræðunni um þessar skattbreytingar fór ég yfir mjög marga vöruflokka og það er nánast sykur í öllu, það hræddi mig. Miðað við þau gögn sem eru til um að það þurfi virkilega háan skatt til að hann fari að bíta, ef við ætlum að stýra neyslunni til hollari vara — já, ég held að framtíðin verði sú varðandi lýðheilsu að við neyðumst til að horfa á þetta þeim augum.