144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég vil taka það fram að mér finnst reyndar vinnubrögðin í fjárlaganefnd á þessu ári mun betri en í fyrra og að mörgu leyti finnst mér nefndin vinna gott starf. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir það. Það er samt oft hraði og asi og við fáum gögn seint í hendurnar og við fáum þau jafnvel í hendur á fundum án þess að hafa lesið þau yfir sem er óþægilegt. Tímasetningar standast yfirleitt ekki. Það er kannski ekki endilega við nefndina að sakast, það getur verið ríkisstjórnin sem er að brasa með breytingartillögur sínar.

Hvað varðar vinnubrögð við fjárlagafrumvarpið bindum við öll miklar vonir við ný lög um opinber fjármál sem vonandi eru væntanleg. Ég hef stundum áhyggjur af því að við bindum of miklar vonir við þau sem slík, vegna þess að það eru auðvitað vinnubrögðin sem skipta máli. Það kemur að sjálfsögðu ekkert í veg fyrir það að við vinnum nú þegar í anda þeirra laga sem við erum öll svo hrifin af og hefur verið horft til Svíþjóðar í því sambandi og þverpólitísk sátt var um það mál, byrjað að vinna að því á síðasta kjörtímabili og með aðstoð AGS ef ég fer rétt með.

Ég átta mig heldur ekki alveg á hlutverki minni hlutans í fjárlaganefnd. Ég skil það kannski þegar kemur að framkvæmd fjárlaga og eftirliti og því, en þegar kemur að vinnu við fjárlagafrumvarpið er maður í rauninni meira að vinna til þess að gera sitt eigið nefndarálit frekar en að maður sé endilega að leggja eitthvað til málanna. Mér hefði til dæmis fundist eðlilegt að öll nefndin hefði sest yfir breytingartillögur sem sneru að félagasamtökum og slíkt, en það er ekki hefð fyrir slíku. Það finnst mér miður vegna þess að betur sjá augu en auga og það er engin pólitík í þannig málum. Mér finnst því stundum hlutverk minni hlutans vera svolítið skrýtið.