144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. 7. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður er hress og kátur eins og venjulega. En ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið.

Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að hægt væri að bæta þetta ferli. Nú hef ég ekki setið í fjárlaganefnd á þessu þingi og þekki ekki hvernig vinnulagið er þar núna. Þegar maður er í þriggja manna þingflokki þarf auðvitað svolítið að forgangsraða fundum, þeir eru oft á sama tíma. Í fyrra var yfirleitt velferðarnefndarfundur á sama tíma þannig að ég gat ekki sótt þessa fundi jafn mikið og ég hefði viljað. En mér fannst alltaf að vandamálið væri kannski ekkert endilega nefndarmönnum, nefndinni eða neinum í sjálfu sér að kenna, heldur að verklagið sem hér er til staðar sé kannski meira vegna þess að fólk vill gera hlutina eins og það er vant að gera þá og kann að gera þá á ákveðinn hátt. Við erum auðvitað með sérfræðinga til þess að vinna með okkur, hv. nefndarritara, og þeir gera hlutina á þann hátt sem þeir kunna. En ég get ekki að því gert að mér finnst vanta eitthvað meira um nánari útfærslu. Sem hugbúnaðarsmiður sé ég alltaf fyrir mér vefsíðu þar sem allir færu og logguðu sig inn og mundu gera eitthvað á sameiginlegu svæði. Það er ekki víst að það sé endilega rétt nálgun, hún er auðvitað lituð af mínu fagi. En ég sé þetta víða á þinginu og upplifði það alla vega á sínum tíma í fjárlaganefnd, með þeim fyrirvara að ég hef ekki tekið þátt í svona fjárreiðustarfi almennt heldur.

Mig langar að heyra meira um útfærslur frá hv. þingmanni á því hvernig væri nákvæmlega hægt að bæta starfið, sérstaklega hvernig hægt væri að hjálpa öðrum þingmönnum sem eru ekki í fjárlaganefnd, ýmist vegna þess að þeir komast (Forseti hringir.) ekki eða eru ekki hluti af henni. Hvernig væri hægt að gera þetta ferli gagnsærra gagnvart öðrum þingmönnum og hjálpa okkur öllum að taka meiri þátt í því saman að vinna þessa vinnu?