144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það veldur mér miklum áhyggjum að við sjáum forstöðumenn ríkisstofnana mæta á fundi þingnefnda og lýsa því yfir að þeir geti ekki uppfyllt lagaskyldur sínar en fá um leið þau skilaboð að frumskylda þeirra sé að halda sig við fjárlög.

Við þingmenn á Alþingi Íslendinga gætum lent í alvarlegri klípu. Hvar ætlum við að draga mörkin í þessu? Við getum kannski sagt: Það er allt í lagi að uppfylla ekki lagaskyldur eitt eða tvö ár í þessari stofnun. En getum við sagt um Landspítalann, þar sem við erum að tala um siðferðileg spursmál sem við ætlum að leggja forstöðumönnum á herðar og starfsmönnum þeirrar stofnunar, hvaða skyldum eigi að fylgja og hverjum ekki?

Ég held að hér þurfi löggjafinn virkilega að velta nákvæmlega fyrir sér hvernig hann ætlar að nálgast þessi mál, og ekki bara innan heilbrigðisþjónustunnar. Það á líka við innan skólakerfisins. Hv. þingmaður nefndi Ríkisútvarpið. Við höfum fjöldann allan af stofnunum sem bera (Forseti hringir.) okkur sömu söguna, forstöðumenn telja sig ekki geta uppfyllt (Forseti hringir.) hvort tveggja, þ.e. að fylgja lagaskyldum og halda sig innan ramma fjárlaga.