144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:20]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er alveg rétt hjá honum að ég er þeirrar skoðunar að setja hefði mátt meiri peninga í skattrannsóknir, ég hef lengi verið þeirrar skoðunar. Mér finnst ekki nóg að gert. Hér er um gríðarlega fjármuni að ræða sem við náum ekki í sem gætu breytt stöðu ríkisins verulega. Ég er þeirrar skoðunar að setja eigi meiri peninga í þetta. Ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi að gera það. Það eru skiptar skoðanir um það. Margir telja að ekki sé sjálfgefið að auknar fjárhæðir til þessara mála skili sér í betri skattskilum. Ég hef heyrt þá skoðun og það er skoðun út af fyrir sig, en það er ekki neitt sem styður hana þannig að ég tel að setja eigi meiri peninga í þetta.