144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:13]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða vinnulagið hér á Alþingi og þetta næturbrölt sem er allt of viðtekin venja. Í gær hófst 2. umr. um fjárlagafrumvarpið. Þetta er eitt stærsta mál ríkisstjórnar á hverju þingi þannig að eðlilegt er að margir hafi skoðun á því og vilji tjá sig og það er gott.

Síðasta ræðan í gær hófst klukkan hálfeitt og hefði ræðumaður talað í 40 mínútur með andsvörum hefði þingi lokið hálftvö, en mér sýndist að því hefði lokið rétt fyrir klukkan eitt. Ég skil ekki þessi vinnubrögð og vil fá að vita: Í hvaða öðru vestrænu lýðræðisríki er löggjafarsamkundan að ræða mál á nóttunni? Ef engin önnur þjóðþing stunda sambærileg vinnubrögð, hvers vegna ætli það sé? Hafa þau ekki fattað snilldina í því að ræða þingmál að nóttu til? Eða getur verið að ástæðan sé sú að önnur þjóðþing telji þetta ekki góð vinnubrögð?

Ég vil lýsa því yfir að ég fagna því að hæstv. forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, hafi ekki tekið að sér embætti innanríkisráðherra, hafi honum boðist það, vegna þess að mér finnst forseti standa sig afar vel í starfi sínu. Hann er maður sátta og nýtur trausts þvert á flokka. Ég vil biðla til hæstv. forseta um að vinna að því að breyta vinnuhefðinni hér til hins betra. Við getum ekki verið föst í því að svona hafi þetta alltaf verið. Það er ekki ásættanlegt. Þegar ég biðla til hæstv. forseta um hjálp hans á ég kannski fyrst og fremst við það að þingfundir fari fram að degi til, þó að það geti verið í einhverjum tilfellum ástæða til að halda þingfundi á kvöldin, en ekki á nóttunni. Þetta er til skammar og mér finnst að við þurfum að gera betur í þessu.