144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:47]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get svarað hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni skýrt: Já, ég er algerlega sammála þeirri forgangsröðun sem birtist þarna. Ég vakti athygli á því í ræðu minni hvað væri langt á milli orða og efnda, sérstaklega varðandi það sem mér finnst hafa verið aðalvandamálið. Menn hafa í raunveruleikanum gert ágætlega í lok fjárlagavinnunnar í hvert skipti, en þó alltaf með skilaboðum um að það þurfi að hagræða meira, að við höfum aldrei efni á að borga þetta og að við þurfum að færa út þessi lyf til að menn geti náð meiri tekjum með því að láta fólk borga tiltekin S-merkt lyf o.s.frv.

Á sama tíma eru engin klár fyrirheit. Á að byggja nýjan spítala? Hvenær kemur hann? Hvaða markmið setjum við okkur? Það er fyrst nú að koma eitthvert fyrsta skref en það er ekki hægt að klára yfirlýsinguna og segja bara hreint út: Við erum að hefja vinnuna núna. Mér finnst það hafa verið mesti veikleikinn í allri þessari umfjöllun. Þrátt fyrir að margt hafi reynt á þolinmæði okkar í fyrri ríkisstjórn og menn hafi stigið skref sem voru þannig að við gengum of langt í niðurskurði — það hefur verið viðurkennt af þeim sem hér stendur — þá stoppuðum við, eins og ég sagði, árið 2012. Menn sögðu: Nú verðum við að gefa til baka, það er ekki annað val. Svo kom ný ríkisstjórn með 1 milljarð í niðurskurð í fjárlögum árið eftir. Þetta er það sem við erum að tala um. Þetta var í fyrstu fjárlögum ríkisstjórnarinnar sem var með þessi loforð sem ég hefði getað skrifað undir öllsömul.

Ég hef sagt að þessir málaflokkar séu svo stórir að það eigi ekki að tæta þá í sundur í pólitískum þrætum, hvorki heilbrigðismálin né menntamálin. Við vitum hvað þjóðin vill. Hún vill hafa þessa þætti í lagi. Hún vill að ríkið beri ábyrgð á þessum þáttum og sjái um að reka þá. Við eigum að sameinast um að segja hvernig og koma okkur út í það að horfa til framtíðar. Hluti af því er að leysa læknadeiluna. Það er algerlega bráðnauðsynlegt til að ekki fari enn verr.