144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er af mörgu að taka þegar fjallað er um frumvarp til fjárlaga í 2. umr. Ég vil sérstaklega nefna að ég er ánægður að sjá hér í þingsal þingmann úr stjórnarliðinu, það er mikilvægt að við í stjórnarandstöðunni séum ekki ein að flytja hugmyndir okkar og sýn, að það sé þó einn stjórnarliði hér meðan þessi umræða fer fram.

Það er sögulega langur tími, eins og komið hefur fram í þessari umræðu, sem hefur liðið frá því fjárlagafrumvarp var lagt fram og þar til 2. umr. um það fer fram. Þetta er Íslandsmet. Aldrei áður hefur liðið svona langur tími. En hann hefur ekki verið nýttur vel og fjárlagatillögur meiri hlutans komið fram seint og um síðir og eins og rakið hefur verið af hv. síðasta ræðumanni snerist umræðan um fjárlagafrumvarpið eiginlega strax um það hvernig menn hygðust lagfæra það.

Þessi ríkisstjórn hefur tileinkað sér áður óþekkt handahóf í fjárlagagerð. Annað árið í röð upplifum við það að hæstv. forsætisráðherra afneitar fjárlagafrumvarpinu í beinni sjónvarpsútsendingu í tíu fréttum að kvöldi dags stefnuræðu forsætisráðherra, daginn áður en mælt er fyrir frumvarpinu sjálfu. Þannig að áður en hæstv. fjármálaráðherra kemur í þennan stól til að mæla fyrir frumvarpinu er hæstv. forsætisráðherra búinn að afneita því og segja að það sé bara sett fram svona til umræðu og sjálfsagt sé að breyta því öllu. Þetta gerðist nú í haust og þetta gerðist í fyrrahaust. Þetta gerir alla vinnu þingsins við fjárlagafrumvarpið eins og langdreginn miðilsfund þar sem þingmenn eru vikum og mánuðum saman að reyna að finna út hver hinn raunverulegi dulspekilegi vilji stjórnarmeirihlutans sé sem síðan kemur ekki fram fyrr en hið raunverulega stýrikerfi ríkisstjórnarinnar, hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, birtast með tillögur sínar. Það er þá sem stjórnarstefnan verður loksins ljós og það er þá sem hin raunverulega ásýnd ríkisstjórnarmeirihlutans birtist okkur annað árið í röð. Hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra eru eins og sendisveinar í vinnu hjá þessum stjórnendum.

Annað árið í röð leggur hæstv. fjármálaráðherra fram fjárlagafrumvarp sem er fullkomlega óraunsætt í fjárlagatillögum. Annað árið í röð afrekar hæstv. fjármálaráðherra að koma Landspítalanum í fullkomið uppnám með fjárlagatillögum. Í fyrra, í fyrstu fjárlögum sínum, voru viðbrögðin við fjárlagatillögunum þannig að þáverandi forstjóri spítalans lýsti því yfir að með þessar fjárlagatillögur gæti hann ekki unnið og sagði starfi sínu lausu um leið og hann hafði fengið að sjá tillögurnar, lýsti því opinberlega að ástæðan fyrir því að hann segði starfi sínu lausu væru þær tillögur sem fjármálaráðherra lagði fram.

Við gengum hér maður undir manns hönd haustið 2013 til að hjálpa stjórnarmeirihlutanum að vinda ofan af vitleysisganginum og bætt var í af hálfu stjórnarmeirihlutans vegna þess að allir sáu að þetta voru fullkomlega óraunsæjar fjárlagatillögur.

Það er ekki eins og hæstv. fjármálaráðherra læri af mistökunum. Ó, nei. Hann endurtekur þau, keyrir aftur út í mýri í fjárlögum nr. 2, kemur hér með fullkomlega óraunsæjar fjárlagatillögur. Ég spurði hann hér í óundirbúnum fyrirspurnum hvort hann hefði vitað að þessar tillögur mundu kalla á uppsagnir 70–100 starfsmanna á Landspítalanum? Vissirðu það, hæstv. fjármálaráðherra? Hann vék sér undan að svara því í tvígang.

Með öðrum orðum hæstv. fjármálaráðherra, eftir að hafa steytt á skeri í fyrri fjárlagagerð sinni hvað varðar málefni Landspítalans, leggur fram fullkomlega óraunsæjar fjárlagatillögur sem hafa í för með sér uppsagnir 70–100 starfsmanna á Landspítalanum ef þær verða að veruleika og virðist ekki hafa látið fara fram neina greiningu á því hvort tillögur um fjárveitingar til þessa móðurskips íslenskrar heilbrigðisþjónustu væru framkvæmanlegar eða ekki.

Við sjáum líka í þessari fjárlagagerð mjög handahófskenndar niðurskurðarleiðir og þær boða ekki gott. Sá sem hér stendur talar af umtalsverðri reynslu í því að setja fram fjárlagafrumvarp á niðurskurðartímum. Það hefur komið í minn hlut sem félagsmálaráðherra að mæla fyrir miklum niðurskurði og aðhaldi í útgjöldum til velferðarmála. Þá var markmið okkar að setja í forgang grundvallarhagsmuni, þjónustu við þá sem ekki gætu séð sér farborða með öðrum hætti og forgangsraða í þágu lægstu bóta, tryggja tækifæri fyrir fólk í vanda. En þegar maður horfir yfir sviðið þá er enga línu að sjá í niðurskurðinum. Í niðurskurði á málasviði félagsmálaráðuneytisins virðast menn hafa farið einföldu leiðina, ekki viljað snerta á bótakerfum, en þá fara menn bara í að skera niður samningsbundin framlög ríkisins sem byggja á samningum við aðila vinnumarkaðarins.

Í fyrsta skipti frá því atvinnuleysistryggingum var komið á, í mjólkurverkfallinu 1955, er réttur launamanna til atvinnuleysistrygginga skertur einhliða af ríkisvaldinu án þess að tala við verkalýðshreyfinguna. Það er líka gengið á svig við samninga sem við gerðum við aðila vinnumarkaðarins um ríkisframlag í starfsendurhæfingarsjóð. Af hverju er mikilvægt að ríkið greiði þangað? Jú, vegna þess að annars mun starfsendurhæfingarsjóður bara sinna þeim sem eiga réttindi í lífeyrissjóðum, þeim sem hafa reynslu af því að vera á vinnumarkaði. Ungt fólk sem ekki hefur atvinnureynslu, heimavinnandi mæður sem hafa eignast börn ungar, ekki haft tækifæri til að fara á vinnumarkað, mörg dæmi eru um að fólk í þeirri stöðu þurfi starfsendurhæfingar við en hafi ekki réttindi í lífeyrissjóði. Og markmið greiðslu ríkisins í starfsendurhæfingarsjóðinn er að tryggja að sjóðurinn þjóni öllum eins, að það verði ekki tvær þjóðir í þessu landi; þeir sem hafa réttindi og svo hinn réttlausi lýður sem þarf að sæta lakari þjónustu. Það er eins og ríkisstjórnin hirði ekkert um þennan bakgrunn, ekki heldur um þann bakgrunn að starfsendurhæfingin var búin til í kjölfar vinnu sem var sett á laggirnar í ríkisstjórnartíð undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar, leidd af ráðuneytisstjóra hans.

Þriðja dæmið af niðurskurði á fjárlagasviði félagsmálaráðuneytisins er að menn ætla að fella niður framlag ríkisins til að jafna örorkubyrði. Þegar gerðar eru athugasemdir þá er sagt: Við ætlum bara að láta þetta taka gildi 1. júní. En hvað þýðir þetta? Jú, örorkubyrði lífeyrissjóða er misskipt vegna þess að fólk er í mishættulegum störfum. Það eru ekki miklar líkur á að þingmenn verði fyrir því heilsutjóni í starfi sínu að þeir missi starfsgetu og verði öryrkjar. Það er mun algengara hjá fólki í erfiðisvinnu. Sjómenn eru í sérstakri hættu. Ef ríkið hættir að greiða þetta framlag munu lífeyrissjóðir erfiðisvinnufólks, Lífeyrissjóður sjómanna, þurfa að skerða lífeyrisréttindi sinna félaga, svo einfalt er það. Þannig að þetta er eins ófélagsleg aðgerð og hægt er að hugsa sér, að draga þennan stuðning og þetta framlag til baka. Á sama tíma og ríkið er með ríkisábyrgð á lífeyri stórs hluta starfsmanna sinna.

Það sem er svo alvarlegt við þetta er að allar fjárlagatillögur félagsmálaráðuneytisins að þessu leyti fela í sér að brjóta á samningsbundnum réttindum. Það er mjög merkilegt að þessi ríkisstjórn virðir ekki þann grunnþátt okkar samfélagsgerðar að samningar aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins standi. Þetta eru ekki einhverjar dillur sem eru til komnar í tíð síðustu ríkisstjórnar, þessi framlög. Ó, nei. Atvinnuleysisréttindin má rekja allt aftur til ársins 1955. Hina þættina, starfsendurhæfinguna og framlagið til jöfnunar örorkubyrði, má rekja aftur til ársins 2005. Það er sem sagt verið að ganga á bak samninga sem Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson gerðu við aðila vinnumarkaðarins.

Það er svolítið athyglisvert, af því ég hef nú svolítið verið að grennslast fyrir um þetta hjá þeim sem þekkja til hjá verkalýðshreyfingu og Samtökum atvinnurekenda, að öllum ber saman um að þessi framganga af hálfu ríkisstjórnar hafi aldrei sést áður. Þeir segja: Það var meira að segja hægt að semja við Halldór og Davíð og þeir samningar stóðu. En nú virða menn ekki nokkurn skapaðan hlut og finnst bara sjálfsagt að skera niður með því að skerða umsamin framlög á vinnumarkaði.

Það eru ekki bara samningar á vinnumarkaði sem verða fyrir barðinu á þessu. Það er nýbúið að gera samning ríkisins við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um framlag til almenningssamgangna. Þeir samningar eru sviknir. Fyrir nokkrum mánuðum flutti hæstv. fjármálaráðherra hofmóðuga ræðu um að auðvitað ætti ekki að svíkja samningsbundin framlög. Þau eru bara svikin þvers og kruss í hans eigin fjárlagafrumvarpi.

Þá kemur maður að niðurskurðinum í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Það liggur nú við að maður klökkni þegar yfir það er farið.

Hér hefur nokkuð verið fjallað um starfsemi Ríkisútvarpsins. Það er ótrúlegt að sjá meinbægni ríkisstjórnarmeirihlutans í garð þeirrar stofnunar, óvildina sem svífur yfir vötnum. Í umræðu sem ég átti við hæstv. menntamálaráðherra nýverið kom þetta svo skýrt fram. Eftir fyrri umræðuna leið mér bara vel, það voru allir sammála um grundvallaratriðin. Útvarpsgjaldið þyrfti að vera óbreytt, það þyrfti allt að renna til RÚV og létta þyrfti af stofnuninni þeim sandpokum, þeim klyfjum, sem komið var á hana á sínum tíma sem eru lífeyrisskuldbindingar frá gamalli tíð, sem voru fluttar yfir á stofnunina til þess að passa að hún væri að burðast með nægilega mikið í efnahagsreikningnum.

Í seinni umferð umræðunnar heyrðist allt annað hljóð frá stjórnarflokkunum. Þá kom í ljós að þeir voru báðir þverklofnir í afstöðunni til Ríkisútvarpsins. Annars vegar eru það óvildarmennirnir sem vilja nota þetta tækifæri, að þeir sitja núna við stjórnvölinn, til þess að knésetja Ríkisútvarpið í eitt skipti fyrir öll. Við lesum reglulega ræður hv. varaþingmanns Óla Björns Kárasonar um það efni í Morgunblaðinu sem birtar eru með velþóknun Svarthöfða. Eftir þeirri línu virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera bundinn af að dansa. Þó að ekki verði ráðið annað af ræðum hæstv. menntamálaráðherra en hann geri sér grein fyrir því að frekari fjárframlög þurfi að koma til. Sams konar kleyfhygli verður vart í viðhorfi Framsóknarflokksins til þessa, annars vegar eru það þeir sem vilja styðja við stofnunina og hins vegar hinir sem vilja refsa henni fyrir fréttaflutning í það og það skiptið.

Það hefur verið víðtæk samstaða um Ríkisútvarpið hér og Alþingi hefur markað skilgreininguna á almannaþjónustuhlutverki þess. Eigi að breyta því þarf það að gerast með lögum á Alþingi. En hæstv. menntamálaráðherra virðist vera að fara þá leið að grafa undan almannaþjónustuhlutverkinu af því hann þorir ekki að koma hér inn með frumvarp til að leggja fram breytingu á skilgreiningu á almannaþjónustuhlutverkinu til samræmis við hinn raunverulega vilja baktjaldaaflanna í Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna er komið að ögurstund fyrir Ríkisútvarpið.

Hæstv. menntamálaráðherra virðist vera búinn að gera það að plagsið að reyna að breyta stefnumörkun með fjárveitingum. Við höfum heyrt frá Háskóla Íslands, hvernig hann stendur frammi fyrir því að fá ekki greitt fyrir þá nemendur sem hann veitir þjónustu. Þess vegna þarf háskólinn að vísa frá fólki með einhverjum hætti, en fær enga menntapólitíska leiðbeiningu frá ráðuneytinu. Ber að setja á skólagjöld, ber að hætta að bjóða upp á tiltekna þjónustu, ber að koma á fjöldatakmörkunum? Hvernig á háskólinn að leysa úr þessu? Það er ekki ákvörðun, í nútímalegu norrænu lýðræðisríki, sem fáeinir prófessorar eiga að þurfa að taka. Það er ákvörðun sem Alþingi Íslendinga á að taka ef þjóðarháskólinn á að hætta að bjóða tiltekna þjónustu.

Hvergi kveður jafn rammt að þessu eins og í hinum hörmulegu tillögum menntamálaráðuneytisins um að loka framhaldsskólunum fyrir fólki yfir 25 ára aldri í bóknámi. Tekið er fram að þeir sem eru yfir 25 ára í starfsnámi eigi að fá að vera þar áfram. Þá spyr maður: Hver er tilgangurinn með aðgerðinni? Er það tilviljun að hlutfall nemenda yfir 25 ára aldri er 33% í Fjölbrautaskólanum í Ármúla? Nei, vegna þess að það er skóli sem hefur sérhæft sig í að gefa fólki færi á því, hvenær sem er á lífsleiðinni, að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið, koma aftur í nám. Er það tilviljun að hlutfall 25 ára og eldri í Menntaskólanum á Tröllaskaga er 20%? Nei, vegna þess að það er nýr skóli og fólk á Tröllaskaga hefur ekki haft aðgang að framhaldsnámi í sinni heimabyggð. Það er uppsöfnuð þörf. Það er því ótrúlega mikilvægt fyrir rekstrargrundvöll þess litla skóla og fyrir menntunarstig á þessu svæði að fólk fái að svala fróðleiksþorsta sínum og fái að nýta það tækifæri að afla sér framhaldsmenntunar.

Ég hef margsinnis rakið það hér úr þessum ræðustól í haust að það sé ótrúlega skrýtið að ákveða að meina fólki aðgang að þjónustu sem kostar 13.000 kr. á önn og skylda það til að fara í þjónustu sem kostar 225.000 kr. á önn að ástæðulausu. Er þetta fólk verri borgarar en aðrir? Ég minni á greinar sem dr. Gestur Guðmundsson prófessor hefur skrifað um hina íslensku leið í menntamálum. Þar rekur hann það að allar þessar kenningar um að framhaldsskólinn eigi að vera ungmennaskóli séu byggðar á miklum vanlestri á íslenskum staðreyndum. Það sé ósköp einfaldlega þannig að íslenskt menntakerfi sé öðruvísi en annarra þjóða. Hjá okkur taki fólk sér gjarnan hlé frá námi og komi svo aftur í nám og ljúki því. Það er það sem Gestur kallar hina íslensku leið. Hann hefur spurt: Er hún eitthvað verri en aðrar leiðir? Höfum við einhverjar rannsóknarniðurstöður sem segja okkur að það sé verri leið en önnur að fólk hafi reynslu af vinnumarkaði þegar það lýkur stúdentsprófi? Er það endilega gott fyrir okkur að segja að allir þurfi að fara beina og breiða braut upp í gegnum menntaskóla og þaðan í háskóla og koma út á vinnumarkað 25 ára án þess að hafa nokkru sinni unnið fyrir sér? Er það endilega samfélagsleg nauðsyn að haga málum þannig? Þar fyrir utan lýsir þetta ótrúlegri glámskyggni gagnvart mikilvægi menntakerfisins fyrir möguleika fólks til að finna kröftum sínum viðnám og breyta aðstæðum sínum.

Fjöldi fólks hefur haft samband við mig eftir að þessar áætlanir voru kunngerðar í haust. Mér er minnisstætt bréf frá konu á fertugsaldri sem eftir að hafa eignast þrjú börn fór í framhaldsskólanám, lauk því og lauk síðan háskólanámi. Er hún verri borgari en aðrir í þessu landi? Átti hún ekki inni fyrir framhaldsnámi af því hún hóf það 31 árs að aldri? Eða maðurinn sem hefur verið í sambandi við mig og á sér þann draum að fara í Lögregluskólann. Er í láglaunastarfi og er í námi til stúdentsprófs en ræður ekki við að borga 225.000 kr. á önn, 450.000 kr. Það þarf að vinna fyrir yfir 700.000 kr. og borga af þeim skatt til að ráða við þessi skólagjöld. Hann spyr: Er ég verri maður en aðrir í þessu landi? Af hverju má ég ekki njóta tækifærisins núna loksins þegar ég get og hef áhuga á að nýta mér það?

Virðulegi forseti. Þegar maður horfir síðan á tölurnar að baki þessu þá fellur manni allur ketill í eld. Það eru ekki, þegar öllu er á botninn hvolft, nema 200 manns á ári að ljúka stúdentsprófi á landinu öllu yfir 25 ára aldri. Við vitum að brottfall er stærsta vandamál í íslensku framhaldsskólakerfi. Þar skerum við okkur úr í alþjóðlegum samanburði. Við vitum að framhaldsmenntun er minni hér en í nokkru öðru landi í Norður-Evrópu. Samt eru bara 200 manns að ljúka stúdentsprófi eftir 25 ára aldur. Það er þá markmið núna að bregða fyrir þá fæti. Ég spyr: Hvaða einkunn gefum við því fólki sem situr við marklínuna og einsetur sér að bregða fæti fyrir þá sem seint og um síðir komast í mark fyrir eigin rammleik? Hvers konar fautaskapur er það að beita opinberu valdi á þennan hátt þegar engin efnisrök eru fyrir því?

Virðulegi forseti. Þegar maður horfir yfir þetta fjárlagafrumvarp verður ein heildarhugmynd nokkuð ljós; opinberri þjónustu er skipulega haldið á sveltistigi. Það er eina myndin sem maður sér birtast alls staðar í frumvarpinu. Það er engin önnur leið til að skýra fjárveitingar sem allir vita að ekki eru fullnægjandi til Landspítalans og það er engin önnur leið til að skýra fjárveitingar sem allir vita að geta ekki gengið upp, hvorki á háskóla- né framhaldsskólastigi.

Á sama tíma kemur þessi nýja skattahækkunarríkisstjórn með stöðugt ný notendagjöld. Þetta heita ekki skattar, en þetta eru gjöld sem eru lögð á. Þegar allt er tekið saman blasir við að hækkun á kostnaðarhlutdeild sjúklinga muni á næsta ári verða nærri 2 milljarðar — 2 milljarðar í nýja viðbótarskatta þar sem allir greiða jafnt, fátækir sem ríkir.

Við höfum líka séð ákveðna hugkvæmni þessarar ríkisstjórnar. Í fyrra voru innritunargjöld í háskólann hækkuð um nokkurn veginn 240 millj. kr., þar af fóru 200 millj. kr. í ríkissjóð og háskólinn fékk 40 millj. kr. Það var sem sagt fundinn sérstakur nýr hópur skattgjaldenda, hin breiðu bök fundust í fyrra, það voru stúdentar sem ákveðið var að leggja á sérstök gjöld umfram aðra landsmenn.

Við sjáum núna hinar grátbroslegu og krampakenndu hugmyndir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um ný náttúrugjöld sem á að innheimta með hersveitum náttúruvarðliða sem eiga að fara um landið og ganga eftir því að allir séu búnir að gjalda keisaranum það sem keisarans er.

Þetta er hluti af heildstæðri sýn og þetta er hluti af stjórnmálastefnu sem við höfum séð birtast víða um lönd. Það er markmið að grafa undan opinberri þjónustu. Það er markmið að hún verði ekki góð. Það er markmið að borga þurfi sérstaklega fyrir hana. Og með öllu þessu eykst óþol fólks gagnvart þjónustunni. Þjónustan sem fólk taldi sig vera búið að borga með sköttum rýrnar að gæðum og svo þarf fólk að borga fyrir hana ofan í kaupið. Það sem meira er, öll þau notendagjöld eru óháð tekjum og eignum þannig að þeir sem minnst hafa borga mest.

Annar liður í þessari aðför að opinberri þjónustu er sú orðræða sem tekin hefur verið upp af stjórnarmeirihlutanum gagnvart forstöðumönnum opinberra stofnana þar sem ráðist hefur verið að sjálfstæði stofnana og heiðarleik stjórnenda þeirra. Aftur og aftur höfum við séð hv. þingmenn, formann og varaformann fjárlaganefndar, geysast fram með fordæmingarvöndinn yfir framúrakstri stofnana sem allir vita að er ekki vegna getuleysis forstjóra heldur vegna ónógra fjárveitinga sem margsinnis hefur verið varað við. Skýrasta dæmið er Landspítalinn. Þessi aðferð er glæpavæðing opinbers rekstrar. Ef þú ferð fram úr þá verður formanni og varaformanni fjárlaganefndar sigað á þig og koma með fordæmingarræðurnar. Í staðinn fyrir að við öxlum samfélagslega ábyrgð af ónógum fjárveitingum er ábyrgðinni skellt á einstaklinga og ábyrgðin þannig einstaklingsvædd.

Við sjáum frekari aðgerðir ríkisstjórnarinnar að þessu leyti. Við höfum ekkert rætt það mikið hér í þingsal. Við höfum nýlegt dæmi frá því fyrir nokkrum dögum þar sem við sjáum að þessi ríkisstjórn er farin að túlka starfsmannalögin með allt öðrum hætti en fyrri ríkisstjórnir hafa gert, auglýsir stöður þegar fimm ára skipunartími er útrunninn og þvingar menn til að taka við þeim með öðrum formerkjum en lagt var upp með í upphafi, eða skiptir einfaldlega út fullkomlega hæfum embættismönnum eins og gert var í tilviki landlæknis nú nýverið. Það bjargar hæstv. heilbrigðisráðherra í því tilviki að sá sem hann skipaði var ágætlega hæfur líka. Það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta eru ný lög. Og starfsmannlögin frá 1996 hafa aldrei áður verið túlkuð með þeim hætti að ráðherrar eigi frjálst val eftir fimm ár að auglýsa stöður og séu ekki bundnir af því að veita stöðuna þeim sem eru í henni fyrir. Þetta mun grafa undan sjálfstæði stofnana og sjálfstæði lykilembættismanna í framhaldinu. Þetta er alvarleg þróun vegna þess að ríkisstjórnin er að sýna að henni er ekkert sérstaklega vel gefið að fara vel með vald. Framganga af þessum toga mun grafa undan því sem er mjög mikilvægt fyrir okkur í samfélaginu, sterkum ríkisstofnunum, sjálfstæðum embættismönnum sem elta ekki hið pólitíska vald frá degi til dags.

Við sjáum það hins vegar í litlu sem stóru að sjálfstæði embættismanna er eitur í beinum ríkisstjórnarinnar, útleggingar hæstv. forsætisráðherra á örlögum fyrrverandi innanríkisráðherra var mjög gott dæmi um það þar sem eðlilegar spurningar um fráleita embættisfærslu voru glæpurinn en ekki misferli með upplýsingar eða misbeiting á opinberu valdi. Í sama knérunn hjó fyrrverandi hæstaréttardómari í sjónvarpinu nýverið þegar hann útlistaði alla atburðarásina í kringum fyrrverandi innanríkisráðherra og mál hennar síðasta árið sem eitt stórt samsæri óvandaðra manna.

Virðulegi forseti. Aðeins frekar um einstaka þætti sem mér hefur ekki gefist tími til að fjalla sérstaklega um áður. Ég vil sérstaklega nefna húsnæðismálin vegna þess að fyrir liggja tillögur okkar í stjórnarandstöðunni um breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem eru ítarlegar og taka á mörgum þáttum. Við vorum þar bundin af þeim ramma sem ríkisstjórnin hefur markað ríkisfjármálunum og gátum í sjálfu sér ekki komið með nýtt heildstætt fjárlagafrumvarp. En við bendum þó á nokkur mikilvæg atriði sem rétt er að taka á. Ég hef rakið mörg þeirra í ræðu minni og ætla ekki að fara frekar yfir þau en vísa að öðru leyti til þeirrar tillögu. Mig langar að víkja að húsnæðismálunum frekar.

Í fjárlagafrumvarpinu er ekki að finna neinar úrbætur í húsnæðismálum, engar efndir á ítrekuðum fyrirheitum forustumanna ríkisstjórnarinnar frá því í vor þegar samþykkt voru hér gríðarleg útgjöld ríkisins til leiðréttingar skulda fasteignaeigenda um að sambærileg úrlausn kæmi á haustþingi fyrir aðra hópa þegar við spurðum um úrlausn fyrir leigjendur, fyrir þá sem búa í búseturéttaríbúðum. Nú horfum við á fjárlagafrumvarpið og þar er enga úrlausn að fá fyrir þessa hópa.

Í mótvægisaðgerðum, til að vega á móti, með svona litlu fiffi á vísitölunni, neikvæðum áhrifum á hækkun matarskatts, er komið með 400 millj. kr. til viðbótar inn í húsaleigubætur, en skerðingarmörk húsaleigubóta eru ekki hækkuð. Það þýðir að þær verða áfram fyrir allra tekjulægsta hópinn. Þessi hækkun er þar af leiðandi ekki almenn leiðrétting á hækkun verðtryggðrar leigu leigjenda eins og eðlilegt væri ef jafnræði væri haft og samræmi í aðgerðum ríkisstjórnarinnar milli þeirra sem eru í leiguhúsnæði og hinna sem búa í eigin húsnæði.

Áfram heldur ríkisstjórnin að rækta óvild sína í garð þeirra sem búa í búseturéttaríbúðum. Þeir voru undanskildir millifærslunni stóru í vor án nokkurs efnislegs rökstuðnings, því að þeir greiða af tilgreindum verðtryggðum lánum og upplifðu þess vegna nákvæmlega sama forsendubrest og þeir sem búa í eigin húsnæði og þeir fá vaxtabætur með þessum sömu lánum og hafa hingað til alltaf, í öllum úrlausnum stjórnvalda hvað varðar vaxtabætur og aðra fyrirgreiðslu er varðar aðstoð vegna skuldsetningar á húsnæði, verið settir undir sama hatt og eigendur í eigin húsnæði. Það er ekki króna í sérstaka úrlausn handa eigendum í búseturéttaríbúðum.

Hins vegar er milljörðum veitt í Íbúðalánasjóð til að borga kostnaðinn af millifærslunni miklu fyrir Íbúðalánasjóð sem þegar er gjaldþrota og mun nú þurfa að horfast í augu við enn ríkari uppgreiðslur og enn meiri vanda í rekstri.

Fyrirheitin sem hér voru gefin í vor, um að á haustþingi kæmi úrlausn fyrir leigjendur, fyrir eigendur í búseturéttaríbúðum, sem með einhverjum hætti væri sambærileg þeirri úrlausn sem fasteignaeigendur í eigin húsnæði fengu með millifærslunni stóru — sú úrlausn hefur ekki birst og hvergi glittir í hana. Það sem verra er, hér er ekki á neinn hátt bætt í framlög ríkisins til félagslegs húsnæðis.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur verið mjög duglegur við að skensa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fyrir að gera ekkert til að bregðast við vaxandi biðlista eftir félagslegu íbúðarhúsnæði. En allt sem hægt væri að gera krefst atbeina ríkisstjórnarinnar. Mig langar að fara yfir það stuttlega.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur ítrekað kvartað yfir því að Reykjavíkurborg taki ekki lán hjá Íbúðalánasjóði þar sem niðurgreidd lán bjóðast. Vandinn hefur verið sá að Íbúðalánasjóður hefur verið að fjármagna sig á yfir 100 punktum meira en Reykjavíkurborg sjálf. Það hefur því ekki borgað sig fyrir Reykjavíkurborg að taka lán hjá Íbúðalánasjóði á háum vöxtum og fá niðurgreiðslu upp á eitt prósentustig eða 100 punkta, úr 4,5% niður í 3,5%, vegna þess að Reykjavíkurborg hefur getað farið út á götu og fengið lán upp á 3,3%. Það sem hefði þurft að gera, og hæstv. félagsmálaráðherra hefði getað gert, hefði verið að breyta lögum um húsnæðismál og heimila ríkinu að veita 100 punkta niðurgreiðsluna óháð því hvar lánið er tekið. Það hefði verið úrlausn sem Reykjavíkurborg hefði munað um. Þá hefði verið hægt að fara í enn meiri uppbyggingu og ekki bara hjá Reykjavíkurborg heldur líka í öðrum sveitarfélögum, því að Lánasjóður sveitarfélaga var að fá svipuð kjör, örlítið hærri, 3,4%, þegar Reykjavíkurborg var að fá 3,3%.

Í annan stað liggur fyrir einbeittur vilji sveitarfélaganna hér í kringum Reykjavík til að grípa til frekari aðgerða í félagslegu húsnæði. Ég ætla nú að segja það sem hrós — menn segja oft að umræðuhefð í íslenskum stjórnmálum sé þannig að það sé ekki metið sem fólk í öðrum flokkum geri — að ég hef hrifist af meiri hlutanum í Hafnarfirði og Kópavogi, nýju forustufólki þar í Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð. Það hefur verið sammála okkur í Samfylkingunni um mikilvægi áframhaldandi uppbyggingar félagslegs húsnæðis. Á þingmannafundum með hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra stendur það sama upp úr meiri hlutanum í Hafnarfirði og meiri hlutanum í Kópavogi: Hækkið skuldaþakið, eða takið félagslegu íbúðirnar burt þannig að þær reki okkur ekki upp í skuldaþakið.

Þessi sveitarfélög eru með öðrum orðum það skuldsett að þau geta ekki keypt meira félagslegt húsnæði vegna þess að þá brjóta þau reglur um skuldsetningu sveitarfélaga sem var komið á með lögum héðan frá Alþingi. Það er aftur Alþingis og stjórnarmeirihlutans að breyta þeim lögum. Það er hægt að breyta þeim. Þetta skuldaþak er ekki klappað í stein. Ég gekkst í það þegar ég var félagsmálaráðherra að skuldbindingar sveitarfélaganna til að byggja hjúkrunarheimili voru teknar út fyrir sviga varðandi þetta skuldaþak. Það eru enn ríkari rök til að taka félagslegt húsnæði undan skuldaþakinu frekar en hjúkrunarheimilin, því að hjúkrunarheimilin eru þó ekki mjög vel seljanlegar eignir en félagslegar íbúðir er alltaf hægt að selja á almennum markaði. Og húsnæðismál eru lögbundið verkefni sveitarfélaga en ekki öldrunarmál. Þannig að rökin sem ég gat sannfært Alþingi um að beita, þegar við undanskildum hjúkrunarheimilin skuldaþaki sveitarfélaganna, eiga enn betur við í tilviki félagslegs húsnæðis. Hvað dvelur þá orminn langa? Hvers vegna kemur ekkert frá ríkisstjórninni?

Að síðustu: Reykjavíkurborg hefur nú lagt fram nýjar hugmyndir í samræmi við tillögur, sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur setið á í meira en hálft ár, um úrlausn í félagslegu húsnæði. Mér fannst það skynsamlega gert hjá Reykjavíkurborg. Fyrst ekkert gerist hjá ríkisstjórninni í húsnæðismálum, engin framlög í fjárlagafrumvarpinu, því þá ekki að taka upp tillögur þeirra sjálfra, sem þeir hafa sjálfir sagt að eigi að vera forsenda frekari stefnumörkunar, og óska eftir viðræðum við þá? Það er eins og Reykjavíkurborg er búin að gera, óskar eftir mótframlagi frá ríkinu vegna þess að í tillögunum sem gengið var frá og ríkisstjórnin hefur viðurkennt að eigi að vera grundvöllur nýrrar húsnæðisstefnu er gert ráð fyrri slíku mótframlagi.

Þess sér hvergi stað í þessu fjárlagafrumvarpi að ætlunin sé að gera neitt í uppbyggingu á félagslegu húsnæði þegar við erum að fást við fordæmalausan vanda í húsnæðismálum, fordæmalausa biðlista í félagslegu húsnæði. Það er ekki hægt af ríkisstjórninni eða hæstv. félagsmálaráðherra að skella skuldinni á sveitarfélög sem eru öll af vilja gerð til að veita úrlausn en eru bundin í báða skó vegna þess annars vegar að ríkið veitir ekki mótframlög og vegna þess hins vegar að ríkið setur strangar skuldareglur og neitar að laga þær að þörfum sveitarfélaganna í þessu efni.

Virðulegi forseti. Ég er nú kominn að lokum þess tíma sem ég hef hér til umræðu en hefði gjarnan viljað víkja að fleiri atriðum. Það eru auðvitað atriði sem ég mundi vilja ræða í næstu ræðu minni í þessari umræðu. Ég hef ekki komist til að ræða framkvæmdir við ferðamannastaði sem er svið sem hefur fullkomlega verið vanrækt af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans þrátt fyrir að það væri algjörlega fyrirséð að þar þyrfti mikið til að koma. Ég hef ekkert komist í byggðamálin. Ekkert komist í sóknaráætlun og ekki komist í vegamálin þar sem ríkisstjórnin skilar algjörlega auðu.