144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta. Það er nú svo skrýtið að það stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, af því þingmaðurinn minntist hér á hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, með leyfi forseta:

„Fallið verður frá áformum fyrri ríkisstjórnar um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.“

Það er nú svolítið skondið. Það má svo sem alveg teygja það hugtak og segja að það hafi ekki verið 14% heldur verði það 11%, það er vissulega hægt að leika sér með það. En þetta er samt svolítið sérstakt.

Ég vék áðan að þessum samningum sem við erum að gera, bæði vinnumarkaðssamningum, almenningssamgöngum o.s.frv. Það er hvergi verið að standa við þá núna. Þessa hótanapólitík sem ég kom inn á, til dæmis varðandi RÚV og Isavia — þetta virkar að minnsta kosti þannig að þetta séu stór inngrip í stjórnir þessara fyrirtækja. Það er pólitísk stjórn hjá RÚV sem virðist vera algjörlega ósammála sinni ríkisstjórn. Það er athyglisvert ef ríkisstjórnin ætlar ekki að hlusta á það fagfólk og telur að ráðherranefnd um ríkisfjármál sé til þess bær að meta rekstur Ríkisútvarpsins frekar en þessi stjórn sem er þó búin að vera á kafi ofan í málinu.

Eitt af því sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að skerðingar á frítekjumarki vegna atvinnutekna og fjármagnstekna aldraðra og öryrkja verði afturkallaðar. Í þessu frumvarpi virðist ekki vera gerð nein tilraun til þess að breyta því þannig að svo virðist sem ríkisstjórnin sé ekki að standa við gefin loforð eða það sem hún ætlaði sér að gera.

Mig langar líka að spyrja þingmanninn um framlög til skattrannsóknarstjóra ríkisins. Við höfum talað (Forseti hringir.) um að aukin framlög þurfi bæði til skattrannsóknarstjóra og sérstaks (Forseti hringir.) saksóknara meðan mál eru að klárast.