144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:20]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið og spurninguna. Mér heyrist við hv. þm. Árni Páll Árnason vera sammála um að það að setja í hendur lækna hvaða aðgerðir eigi að gera og eigi ekki að gera sé í raun ákveðinn pólitískur flótti sem gengur ekki upp. Það þýðir ekkert að skýla sér á bak við það fólk sem maður réttir krónur og aura til þess að sinna þjónustu.

Varðandi aukna kostnaðarþátttöku sjúklinga líst mér að sjálfsögðu illa á hana. Það er einfalt svar við því. Ríkisstjórnin sýnir voðalega lítið á spilin en auðvitað eru farnar að renna á mann tvær grímur um að þetta geti verið eitthvað sem eigi að verða og það er til þess fallið, við vitum það, að auka stéttaskiptingu. Þeir fátækari kaupa sér ekki þjónustu inni á spítölum. Ef það er samfélagið sem ríkisstjórnin vill leggja til hér þá held ég að við ættum að fara að forða okkur.