144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:06]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst nokkuð með umræðunni um frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjárlaga fyrir árið 2015 og haft á orði áður að þar sé ekki einvörðungu að finna tillögur um fjárútlát úr ríkissjóði heldur sé frumvarpið einnig eins konar pólitísk stefnuyfirlýsing. Þá horfir maður til þess hvar áherslurnar liggja. Er verið að létta byrðar þeirra sem lakast standa í þjóðfélaginu eða er verið a þyngja þær? Er á hinn bóginn verið að létta lífið fyrir þeim sem búa við best kjör í landinu eða er hið gagnstæða uppi? Það er augljóst hvað er að gerast í þessu frumvarpi.

Við sjáum að áherslan er fyrst og fremst á einkalausnir á kostnað almannalausna. Ég kom aðeins inn á það í andsvari í gær varðandi samgöngumálin, hve illa almenningssamgöngurnar verða úti í þessu frumvarpi.

Fjárlagafrumvarpið þarf síðan að skoða í samhengi annarra frumvarpa sem þingið hefur haft til umfjöllunar eða eru enn á vinnsluborðinu, svo sem tekjuöflun ríkissjóðs og þar með talið frumvarp sem ég vil gjarnan kalla neyslustýringarfrumvarp ríkisstjórnarinnar, en þar er lagt til að við föllumst á hækkun á virðisaukaskatti á almennri matvöru á sama tíma og við afnemum vörugjöldin. Hvað þýðir þetta? Það kemur fram í greinargerð með umræddu frumvarpi. Þar er okkur sýnt hvernig afnám sykurskattsins, svo dæmi sé tekið, geri konfektkassann ódýrari og gosdrykkina, hve miklu muni þar um. Á sama hátt má lesa út úr því frumvarpi hvernig almenn matvara hækkar í verði. Þetta er neyslustýring sem menn hlógu mikið að hér um árið þegar þáverandi ríkisstjórn vildi vissulega neyslustýra með hækkun á sykurskatti, neyslustýra hollustu ofan í þjóðina en ekki óhollustu. Hið gagnstæða er uppi núna og þess vegna hlægir það mig svolítið þegar hingað í pontu koma fulltrúar stjórnarmeirihlutans hver á fætur öðrum og dásama lýðheilsusjónarmið sem ríkisstjórnin vilji í heiðri hafa. Það gerir hún ekki. Þetta er áþreifanlegt dæmi um hið gagnstæða.

Neyslustýring er með margvíslegum hætti öðrum en þeim sem ég hef þegar nefnt. Ég nefni til dæmis gjöld sem lögð eru á fólk sem þarf að leita til heilbrigðisþjónustunnar. Við fengum það svart á hvítu í tveimur skýrslum — önnur mun hafa verið í byrjun þessa árs og hin í lok hins síðasta, annars vegar frá Krabbameinsfélagi Íslands og hins vegar athugun sem unnin var á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands — að kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi sé komin upp í 20%. Í síðari könnuninni, ég hygg að það hafi verið félagsvísindastofnunarkönnunin, má lesa að þriðji hver Íslendingur fresti eða neiti sér um læknisþjónustu á ári hverju og, sem verra er og alvarlegra, að það séu einkum tekjulægstu hóparnir sem geri það. Þetta er neyslustýring. Þetta stýrir neyslu fólks sem leitar sér lækninga fyrir sig og börnin sín í heilbrigðisþjónustunni.

Auðvitað horfum við til þessara þátta þegar við gaumgæfum þetta frumvarp. Þar sjáum við einnig að til stendur að skerða kjör þeirra sem hafa verið atvinnulausir til langs tíma. Hvernig? Atvinnuleysistíminn er núna þrjú ár. Það stendur til að lækka hann í tvö og hálft ár. Hvað þýðir það? Þótt atvinnuleysisbætur séu lágar eru félagsstyrkir sveitarfélaganna yfirleitt enn lægri. Það þýðir þá að einstaklingur sem er atvinnulaus umfram tvö og hálft ár hrapar niður í tekjum. Þar að auki, og það er önnur saga, þá þýðir þetta auknar byrðar á sveitarfélögin. Ég veit ekki hvernig samkomulagi hefur verið háttað við sveitarfélögin um þetta efni.

Hér tek ég dæmi um neyslustýringu ríkisstjórnarinnar. Hún neyslustýrir í átt að óhollustu og frá hollustu. Síðan gerir hún fátæku fólki torveldara að leita til læknis með því að búa þannig að heilbrigðiskerfinu að líkur séu á því að enn gangi óheillaþróunin þar áfram varðandi kostnaðarþátttöku sjúklinga.

Í tengslum við þetta frumvarp hefur sú ákvörðun fjárlaganefndar verið rædd að falla frá því að hækka bætur almannatrygginga um 3,5% á næsta ári og fara niður í 3%. Rökin eru sögð þau að nú megi ætla að verðbólga verði minni en áður hafi verið talið og þess vegna sé þetta lækkað. Öryrkjabandalagið og hagsmunasamtök láglaunafólks hafa mótmælt þessu réttilega.

Mér finnst ástæða til að rifja aðeins upp samhengi þessara mála. Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp í lok níunda áratugar síðustu aldar þá var þróun greiðslna úr almannatryggingum miðuð við tiltekinn lágmarkstaxta hjá Dagsbrún. Tiltekinn lágmarkstaxti var viðmiðið í þróun almannatrygginga. Mönnum þótti vera nokkurt hald í þessu vegna þess að þá var beintenging í hagsmunabaráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir lægst launaða fólkið. Þetta var sett inn jafnhliða því að tekin var upp staðgreiðsla skatta. Síðan gerðist það á samdráttartímanum á tíunda áratugnum og reyndar gerðist það held ég á hverju ári frá því að þessi lög voru sett að ekki var staðið við þetta. Það var alltaf eitthvað skert. Á samdráttartímanum á fyrri hluta tíunda áratugarins var það alger regla að þetta væri skert. Þess vegna þótti það mikið framfaraspor þegar það var sett inn í lög um almannatryggingar á árinu 1997 að tengja þróun þessara bóta annars vegar launaþróun og hins vegar verðlagsþróun. Þannig er það enn þann dag í dag lögum samkvæmt.

Í 69. gr. laga um almannatryggingar segir, með leyfi forseta:

„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur samkvæmt 63. gr. og fjárhæðir samkvæmt 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Það er ekki bundið lögum að bæturnar megi ekki vera hærri, það er enginn sem segir það, það er ekki bannað með lögum. Það skal taka mið af launaþróun og horfa til verðlags. Þegar við erum svo ljónheppin að hafa ríkisstjórn sem lofaði á hverjum kosningafundinum á fætur öðrum, alla vega þeim sem ég sat á, að það yrði farið í stórátak til að bæta kjör öryrkja og lægst launaða fólksins í landinu þá hefði maður haldið að reynt yrði að gera einhverja bragarbót á þessu og láta standa þá hlutfallshækkun sem menn höfðu þó gert ráð fyrir þegar frumvarpið kom fram. Þess vegna er það fullkomlega skiljanlegt þegar Öryrkjabandalag Íslands, verkalýðshreyfingin og hagsmunaaðilar, sem beita sér í þágu láglaunafólks, lífeyrisþega og öryrkja, skuli hamra á því að við eigum að halda okkur við fyrri töluna. Þetta finnst mér mikilvægt að við höfum í huga.

Það hefur verið komið inn á marga þætti í umræðunni hér og óþarfi að hver maður hamri á því sama og þeir sem áður töluðu. Það hefur verið talað um Ríkisútvarpið. Ég hef alla tíð borið hag Ríkisútvarpsins mjög fyrir brjósti. Ég hlustaði af athygli á það þegar þverpólitísk beiðni kom til okkar frá stjórn Ríkisútvarpsins, ég hygg að allir stjórnarmenn hafi beint varnaðarorðum til okkar, um að Ríkisútvarpið gæti ekki staðið við lögbundnar skyldur sínar ef frumvarpið næði fram að ganga eins og það birtist. Á þetta eigum við að sjálfsögðu að hlusta. Það hefur ekki verið svo í gegnum tíðina að ég hafi alltaf verið sáttur við Ríkisútvarpið fremur en aðra fjölmiðla. Það á væntanlega við um okkur öll. Það er engu að síður menningarstofnun og grundvallarpóstur í lýðræðislegu skipulagi okkar að standa vörð um fjölmiðil sem er óháður peningavaldinu en þarf hins vegar að reiða sig á okkur. Stofnunin verður að geta gert það. Þess vegna eigum við að taka alvarlega þau varnaðarorð og þær óskir sem fram koma frá stjórn Ríkisútvarpsins. Við eigum að hlusta alvarlega á það.

Einum þætti vil ég víkja að sem reyndar margir aðrir hafa gert og það er sú ákvörðun að vísa fólki, sem er komið yfir 25 ára aldur og vill mennta sig, til einkaaðila. Það er það sem verið er að gera,. Þegar þessu fólki er vísað út úr skólunum, eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, þá þarf það að sjálfsögðu að leita til einkaaðila. Ég fór að grennslast fyrir um það hvar væri að finna lagabreytingu þessa efnis. Ég hafði samband við starfsmenn allsherjar- og menntamálanefndar þingsins og spurði: Hvar liggja þessi lög fyrir? Hvenær var tekin ákvörðun um þetta? Og það kom í ljós að það var engin ákvörðun tekin um þetta. Ákvörðunina er að finna í þessu fjárlagafrumvarpi, en það þarf dulmálslykil til að ráða í lausnina. Nú langar mig til að lesa gátuna upp. Hún er á bls. 291, með leyfi forseta:

„Á árinu 2014 fækkaði nemendum vegna minnkandi aðsóknar og aukinna krafna um forgangsröðun og er áætlað að ársnemendur í framhaldsskólum verði 19.601 en í fjárlögum 2014 var gert ráð fyrir 20.293 ársnemendum. Til lengri tíma er áætlað að nemendum í framhaldsskólum muni áfram fækka samhliða því að fleiri nemendur ljúki námi á skemmri tíma en nú er. Í reglum um innritun í framhaldsskóla hafa eldri nemendur minnstan forgang.“ — Minnstan forgang, hér kemur fyrsta vísbending. — „Í tengslum við vinnu frumvarps til fjárlaga 2015 var aldurshópurinn 25 ára og eldri í framhaldsskólum skoðaður sérstaklega. Gera má ráð fyrir að um 2.000 ársnemendur séu í þessum hópi þótt skráðir nemendur á þeim aldri séu um helmingi fleiri. Um það bil 60% eldri nemenda eru í starfsnámi og er miðað við að lágmarka skerðingu þjónustu við þann hóp. Að því marki sem takmörkunum verður beitt við innritun í framhaldsskóla verður megináhersla lögð á að mæta óskum nemenda undir 25 ára aldri um skólavist í samræmi við forgangsröðun framhaldsskólalaga og reglugerðar um innritun.“ — Síðan er áfram haldið.

Þetta er ákvörðunin, þarna er hana að finna. Með öðrum orðum er sagt að eldri nemendur skuli hafa minnstan forgang. Hverjir eru eldri nemendur? Þeir sem eru 25 ára og eldri. Hvað er síðan gert? Síðan er framhaldsskólunum skammtað svo naumt að þeir verða að útiloka einhverja. Hér er síðan lausnin á gátunni um hverja eigi að útiloka — 25 ára og eldri. Þarna er þetta komið. Það er sem sagt hvergi lagt til að Alþingi fallist á þá meginhugsun að beina fólki sem er komið á þennan aldur til einkaaðila um menntun sína. Nei, það er gert með þessum hætti. Þetta þykir mér ekki vera nógu gott nema síður sé.

Mig langar til að víkja að löggæslumálum. Nú varð löggæsla, eins og öll önnur opinber þjónusta, fyrir mikilli skerðingu í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Þá hrundu tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga eins og við þekkjum. Það var brugðist við með miklum niðurskurði og síðan skattkerfisbreytingum til að mæta nýjum þörfum að þessu leyti og þar á meðal var löggæslan.

Samþykkt var á þingi þingsályktunartillaga, sem fram kom vorið 2012, um að ráðist yrði í þverpólitíska vinnu um skilgreiningu á löggæslunni og löggæsluþörfinni í landinu og gerð yrði áætlun í því samhengi. (Gripið fram í: … forustu …) — Já, gott að gangast við þessu. Nú skulum við endilega halda áfram með þá forustu. — Samþykkt var 19. júní árið 2012 að ráðast í þessa vinnu. Um haustið 2012 lét ég sem innanríkisráðherra vinna úttekt á fjárhagsstöðu lögreglunnar. Í ljós kom að löggæslan hafði verið skorin niður um 2,8 milljarða á ársgrundvelli. Það eru miklir peningar. Þetta olli, eins og við þekkjum, miklum þrengingum í löggæslunni eins og annars staðar. Við vildum hafa þetta allt uppi á borði, hver staðan væri nákvæmlega. Þetta fékk síðan þverpólitísk nefnd, sem vann á grundvelli þingsályktunarinnar sem ég vísaði til, í veganesti. Þetta voru gögn sem hún hafði í sinni vinnu. Nefndin skilaði af sér á fyrri hluta árs 2013 og gerði tillögur um breytingar, að vinda skyldi ofan af þessum mikla niðurskurði, eftir því sem hin efnahagslega sól risi á lofti yrði reynt að laga stöðu lögreglunnar. Þegar ég ræddi þessa skýrslu á Alþingi tók ég það sérstaklega fram að auðvitað yrði undið ofan af þessu með hliðsjón af efnahagsástandinu í landinu. Ég var alveg viss um að það yrði ekki gert í einu vetfangi. Síðan er ákveðið að setja 300 millj. kr. viðbótarframlag til lögreglunnar. Þetta var gert fyrir fjárlagaárið 2014. Það var kallað 500 millj. kr. framlag en varð bara 300 milljónir vegna þess að áður höfðu 200 milljónir, að vísu tímabundið, verið settar til að bæta stöðu lögreglunnar. Á grundvelli þessa var okkur sagt að ráðnir yrðu — ég man ekki hvað margir, á annað hundrað lögreglumenn. Ég hafði alltaf ákveðnar efasemdir um að það mundi nákvæmlega ganga eftir. En gott og vel, það var skref fram á við, fínt.

Hvert erum við þá komin? Formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, vísar í forustu Framsóknarflokksins. Ég veit ekki betur en að hún sé formaður fjárlaganefndar. Hvar eru tillögur fjárlaganefndar um löggæsluna? Hvernig skyldu þær standa? Þá er ágætt að fletta í fjárlagafrumvarpinu og þá sannast sagna verð ég að viðurkenna það að mér bregður svolítið í brún að sjá þar hvert embættið á fætur öðru skorið verulega niður, ekki nóg með það heldur er líka skorið niður hjá embætti ríkissaksóknara. Þar með er ekki öll sagan sögð vegna þess að í niðurskurðinum forgangsraðar ríkisstjórnin. Hún forgangsraðar með hvaða hætti lögreglan skuli skera niður.

Við skulum byrja á embætti ríkissaksóknara. Ég vitna nú í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að fjárheimild liðarins lækki um 13,1 millj. kr. að raungildi frá fjárlögum yfirstandandi árs. Annars vegar er gerð tillaga um niðurfellingu á 10 millj. kr. tímabundnu framlagi“ — nú bið ég menn um að hlusta — „til að tryggja skilvirk úrræði þolenda kynferðisbrota og markvissar forvarnaraðgerðir.“

Það á sem sagt að skera niður hjá embættinu en embættið skal vita hvar skal byrjað. Það er jú gagnvart þolendum kynferðisbrota og markvissar forvarnaaðgerðir skulu skornar niður. Þetta segir í textanum. Er þetta einhver tilviljun? Nei.

Förum þá til embættis ríkislögreglustjóra. Þar er líka gert ráð fyrir að fjárheimild liðarins lækki um 23,8 millj. kr. að raungildi frá fjárlögum yfirstandandi árs. Svo er aftur forgangsröðunin.

„Annars vegar er gerð tillaga um 3 millj. kr. lækkun tímabundins framlags til að tryggja skilvirk úrræði þolenda kynferðisbrota og markvissar forvarnaraðgerðir. Hins vegar er lögð til 20,8 millj. kr. lækkun vegna aðhaldsaðgerða í ríkisútgjöldum“

Fyrst er talið upp og byrjað á því að skera niður gagnvart þolendum kynferðisbrota. Þetta er náttúrlega svívirðilegt.

Ég ætla að sleppa í bili að ræða um sérstakan saksóknara sem er skorinn niður um 423 milljónir. Við vissum það að þegar þessir flokkar væru komnir að völdum að þá yrði byrjað að höggva verulega í þetta embætti, sérstakan saksóknara, að eftir því sem hann herti að hvítflibbum þessa lands, sem hefðu brotið af sér, þá mundi Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega rísa upp með niðurskurðarsveðjuna á lofti. (Gripið fram í: Hvernig leyfirðu þér að segja þetta?) — Ég leyfi mér að segja þetta, ég geri það. Það var vitað mál að þá yrði farið að herða að þessu embætti, enda er það allt að ganga eftir. Ég hef áður rætt um embætti sérstaks saksóknara en ég er að halda þræðinum varðandi niðurskurðinn gagnvart þolendum kynferðisbrota.

Það er áfram skorið niður. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, þar er líka skorið niður. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að niður falli tímabundið 30 millj. kr. framlag til að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota og markvissar forvarnaaðgerðir. Allt á sömu bókina lært.

Hér er liðurinn ýmis löggæslu- og öryggismál. Hvað stendur þar?

„… gerð tillaga um 3 millj. kr. lækkun tímabundins framlags til að tryggja skilvirk úrræði þolenda kynferðisbrota og markvissar forvarnaaðgerðir.“

Þetta er engin tilviljun. Þessi stefna er gegnumgangandi hjá lögregluembættum landsins og hjá embætti ríkissaksóknara. Það er verið að ráðast sérstaklega að þolendum kynferðisbrota, að þeim málaflokki. Það er ekki bara þarna sem við sjáum að þetta er að gerast. Verkefnið sem við settum á laggirnar í síðustu ríkisstjórn og lýtur að vitundarvakningu um ofbeldi gegn börnum er skorið niður. Það var tímabundið, það er rétt. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að það eigi að vera fleiri tímabundin verkefni og það eigi að meta þau og endurmeta reglulega hvort verkefnin gagnast eða ekki. Mér finnst það gott. Ég er fullkomlega sammála því og sáttur við það. En mat allra þeirra sem koma að þessum málum er á þá lund að þetta hafi gagnast vel, að þessi vitundarvakning hafi leitt til byltingar í þágu þeirra sem hafa þurft að þola kynferðisbrot.

Við vorum að fá bréf frá Evrópuráðinu þar sem við erum hvött til þess að styrkja verkefni af þessu tagi. Árið 2010 var gert samkomulag af hálfu ríkja sem eiga aðild að Evrópuráðinu, kennt við Lanzarote á Spáni, Kanaríeyjum. Það var samkomulag um að gera að því gangskör að breyta refsilöggjöf þeirra ríkja sem aðild eiga að þessu samkomulagi í þágu barna sem verða fyrir kynferðisofbeldi til að verja þau. Við áttum strax aðild að þessu og undirgengumst þetta endanlega í byrjun árs 2013. Við tókum þátt í þessu starfi og höfum gert það allar götur frá því að það hófst. Við eigum að mörgu leyti góða sögu í þessum málum.

Við rifjuðum það hér upp fyrir nokkrum dögum að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna væri orðinn aldarfjórðungs gamall. Hann var samþykktur hjá Sameinuðu þjóðunum árið 1989. Við höfum stigið ýmis mikilvæg skref til verndar börnum á Íslandi. 1995 var sett á laggirnar Barnaverndarstofa. Við opnuðum Barnahús 1998. Við vorum fyrst Norðurlandaþjóða og fyrsta landið í Evrópu sem setti slíkt hús á laggirnar. Nú eigum við formanninn í þeirri nefnd sem starfar á grundvelli Lanzarote-samkomulagsins.

Það sem ég er að vísa til hérna, framlag til verndar þeim sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, byggir á þessu samkomulagi og þessari vinnu. Það er verið að þurrka þetta allt saman út. Þetta er stefnan sem ríkisstjórnin birtir með þessu fjárlagafrumvarpi. Ætlar Alþingi að fallast á þetta? Á bara að fallast á það þegjandi og hljóðalaust að þetta verði allt saman skorið niður þó að mannréttindasamtök óski eftir því að við fylgjum þessu starfi eftir? Mér finnst það vera fullkomið hneyksli ef það verður látið ganga eftir. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fjárlaganefnd fer með þá beiðni sem kom frá Evrópuráðinu um að við héldum áfram að styrkja verkefni í þessum efnum.

Samgöngumálin eru kapítuli út af fyrir sig. Þar er grundvallarstefnubreyting. Út á hvað gengur sú grundvallarstefnubreyting? Hún gengur út á það að skerða framlög til almenningssamgangna. Fólk á suðvesturhorni landsins stærði sig af því og fannst það gott, mér fannst það gott, að það væri tilbúið að fresta stórframkvæmdum á svæðinu í þágu almenningssamgangna. Það var gert samkomulag um að ríkið verði árlega milljarði kr. til almenningssamgangna. Það var líka brotið blað í þeim efnum varðandi landsbyggðina. Vegagerðin gerði samninga fyrir hönd ríkisins við landshlutasamtök sveitarfélaga um að skipuleggja almenningssamgöngur á svæðunum. Þessi heildarpakki, almenningssamgöngurnar, er nú skertur um 300 milljónir samanlagt. Það er gert með ýmsu móti. Það er gert með því að færa framlagið ekki upp eins og átti að gera með samninginn sem gerður var á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt verðbólgu. Það var ekki gert. Það var kroppað í samninginn á fjárlögum fyrir árið 2014 um 82 milljónir og svo er aftur gert ráð fyrir að gera það núna. Varðandi landsbyggðina detta niður 90 milljónir með breytingu á olíugjaldinu, þ.e. endurgreiðslu á olíugjaldi, vegna samninga sem þegar hafa verið gerðir og eru verðtryggðir, vísitölubundnir. (Gripið fram í.) Það er búið að gera slíka samninga þannig að þetta kemur sér mjög illa fyrir þá sem hafa gert þá. Þarna er forgangsröðun.

Síðan eru ýmsir þættir sem ættu að vera vistaðir annars staðar í fjárlagafrumvarpinu en gert er. Ég nefni til dæmis framkvæmdina á Bakka við Húsavík. Það er framkvæmd sem á að kosta um 850 milljónir á næsta ári, svipað og varið er til allra almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu sem eru um það bil 895 milljónir. Ég slæ á þessar tölu svona gróft, það eru svipaðar upphæðir. Auðvitað á framkvæmdin við Bakka ekki að vera í samgöngukaflanum, hún á að vera í iðnaðar- og atvinnukaflanum. Þá er það ákvörðun stjórnvalda að styrkja einhverja tiltekna atvinnuframkvæmd. Hún á ekkert að vera tengd samgöngumálum enda var hún aldrei á samgönguáætlun, aldrei nokkurn tíma. Þessi framkvæmd kemur inn á allt öðrum forsendum. Þegar fjármálaráðherra og menn í fjármálaráðuneyti horfa til þess sem verið er að setja í samgöngur þá er þessi upphæð þar inni, en hún á ekkert að vera þar, ekki að mínu mati. Hún á að vera allt annars staðar. Ég vek athygli á því að þetta er upphæð sem við eigum eftir að sjá í fjárlögum á næsta ári og líka á því þarnæsta, svipuð upphæð og varið er til almenningssamgangna á suðvesturhorni landsins. Ég hef aldrei verið alveg sáttur við þessa framkvæmd yfirleitt, en ef hún á að vera á annað borð þá á hún ekki að vera vistuð á þessum stað að mínum dómi, alls ekki.

Landspítalinn, heilbrigðiskerfið. Það hafa ýmsir rætt læknaverkfallið og stöðu Landspítalans í þessari umræðu og er óþarfi að hafa um það mjög langt mál vegna þess að við höfum heyrt rökin og tölurnar þó að þær séu aldrei of oft nefndar. Staðreyndin er sú að heilbrigðiskerfið, eins og öll önnur opinber þjónusta, hefur þurft að sæta miklum niðurskurði. Það kom fram hjá hagrannsóknadeild Landsbankans fyrir skömmu að á árinu 2013 hefði það reiknast þannig til að hver landsmaður hefði varið 127 þús. kr. til Landspítala, samsvarandi upphæð verðfærð fyrir árið 2008 hefði verið 160 þús. kr. Gleymum því ekki að þetta er að gerast í efnahagshruni. Í aðdraganda hrunsins og reyndar allar götur frá árinu 2000 hefur Landspítalinn og heilbrigðiskerfið verið í spennitreyju, sérstaklega Landspítalinn. Það er í rauninni ekki sanngjarnt að horfa bara til framlags ríkisins beint til spítalans, það verður að horfa líka til þróunar gjaldmiðilsins. Þegar gjaldmiðillinn fellur um helming í hruninu og eftir hrunið þá hefur það í för með sér að öll aðföng, ekki bara lyf heldur öll tæki verða þeim mun dýrari. Það er því niðurskurður og líka þrengingar vegna þróunar gjaldmiðilsins. Þess vegna hefur spítalinn lýst því yfir núna að fái hann ekki verulega úrlausn sinna mála sé fyrirsjáanlegt að það þurfi að segja upp fólki. Það eru 200 færri stöðugildi núna en voru fyrir hrun, þegar verst lét voru yfir 400 stöðugildi þar. Nú er verið að tala um að fækka þeim.

Síðan kemur ríkisstjórnin og segir: Við ætlum að spýta í reksturinn milljarði. Það vegur ekki einu sinni upp í skuldahalann, það gerir það ekki. Það er því ekki verið að halda í horfinu rekstri spítalans. Hæstv. forseti, verkfallið sem við verðum vitni að núna og er fyrsta verkfall lækna á Íslandi frá því að þeir fengu samningsrétt árið 1986 er orðið svo alvarlegt að Alþingi á ekki að fara heim fyrr en búið er að leysa það. Við eigum ekki að afgreiða fjárlög fyrr en samið hefur verið við lækna. Það er ósanngjarnt að koma fram eins og ráðherrar í ríkisstjórn gera og ýmsir úr hópi atvinnurekenda og stilla láglaunafólki upp við vegg og óska eftir að það lofi því að þegja að eilífu ef hækkuð verði launin við lækna. Það eru aðrir sem eiga að axla slíkar byrðar. Það er hátekju-Ísland, það er forstjóraveldið sem er allt komið á stóru jeppana aftur og í lúxuslifnaðinn. Það eru þeir sem eiga að halda í við sig.

Ég vísa í nýlegt verkfall hjá Finnair, finnska flugfélaginu þar sem forustumennirnir sögðu: Við biðjum ykkur um að falla frá öllum aðgerðum. Fólkið sagði: Það skulum við gera ef þið byrjið á því að lækka við ykkur bónusana og ofurlaunin. Það er þangað sem Ísland á að horfa en ekki til láglaunafólksins. Það á að semja við lækna, það á að ná samkomulagi. Reyndar á það við um fleiri heilbrigðisstéttir. Það verður að gera það. Ef það þarf auknar fjárveitingar til Landspítalans eða annarra heilbrigðisstofnana þá eigum við að veita þær.

Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir framlagi til NATO, nógir peningar í það. Það kostar Íslendinga á bilinu 700–900 milljónir á ári að vera í hernaðarbandalaginu NATO. Það er hægt að horfa líka víðar. Það er hægt að horfa til ákvarðana ríkisstjórnarinnar um að afsala okkur skatttekjum, (Forseti hringir.) auðlegðarskatti svo dæmi sé tekið. Það er þangað sem við eigum að horfa. Þetta verkfall verður að leysa (Forseti hringir.) og Alþingi á ekki að ljúka umfjöllun um fjárlögin fyrr en sér til lands í þeim efnum.