144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. 2. umr. um fjárlög er alltaf dálítið merkileg og mikilvæg. Við ræðum hér forgangsröðunina í rekstri ríkisins. Við erum að ræða hvernig við sjáum samfélagið best, hvernig við viljum hafa það, hver aðkoma ríkisvaldsins á að vera í því að gera hlutina betri, hvaða tækifæri liggja í stöðunni, hvaða framtíðarsýn við höfum.

Ég vil segja fyrst að mér finnst margt mega betur fara í því hvernig fjárlögin eru meðhöndluð í þinginu og hvernig þau koma inn í þingið. Það er einhvern veginn hefð fyrir því að þeim er slengt fram á fyrsta þingdegi og maður fær sólarhring eða tvo til að skoða frumvarpið sem er ítarlegt og margslungið. Ég sem stjórnarandstöðuþingmaður, óbreyttur þingmaður hér í þinginu, hef enga aðkomu að gerð frumvarpsins en þarna sýnir ríkisstjórnin á spilin.

Síðan hefur myndast þessi ósiður, að mörgu leyti er það það, finnst mér, að lagt er fram ófullkomið fjárlagafrumvarp. Menn hafa ekki miklar áhyggjur af því að hafa tekjurnar sem réttastar í áætlunum og oft er farið svolítið bratt í því við fyrstu framlagningu frumvarpsins að skera niður í mikilvægum útgjaldaliðum. Það heitir á vettvangi stjórnmálanna að sprengja reyksprengjur, smjörklípa, láta umræðuna snúast um það. Þetta er einhvers konar væntingastjórnun sem menn stunda, að hafa fjárlagafrumvarpið ekki alveg rétt í upphafi og svo fer fram einhver pólitísk rökræða, pólitískt rifrildi, um fjárlagafrumvarpið. Svo er því breytt meira í átt að því að mæta gagnrýninni. Það er yfirleitt mjög algengt að gripið sé til einhverra lagfæringa á tekjuhliðinni. Allt í einu birtast nýjar tekjur og þá sjáum við ákveðna jólapakkastemningu fyrir jól.

Kannski er erfitt að breyta þessu en ég mundi vilja losna úr þessu. Ég mundi vilja sjá að fjárlögin endurspegluðu miklu betur hvað það er sem ríkisstjórnin vill gera. Ef hún vill til dæmis leggja áherslu á heilbrigðismál þá birtist það bara strax í frumvarpinu, að það þurfi ekkert að rökræða það mikið. Það komi ekki alltaf inn, eins og áður fyrr í fjárauka, eftir á eða sem einhvers konar jólapakki fyrir 2. umr. Þetta lýsir örlítilli ólund í garð umræðunnar. Ég held að hún sé ekki alveg svona annars staðar.

Ég horfi til dæmis á Reykjavíkurborg sem var að afgreiða fjárhagsáætlun, sem er þeirra fjárlög. Þar vinna menn saman að gerð fjárhagsáætlunar. Hún er lögð fram, rædd á fundi og þessi stemning er ekki þar, að allt í einu sé tekjugrundvellinum breytt og hægt að koma inn með alls konar þætti, fullt af hlutum. Það er meiri agi á þessu, sýnist mér. Ég vona að ný lög, sem verða vonandi samþykkt um opinber fjármál, muni nú breyta þessu öllu saman til hins betra.

Ég held að gríðarleg tækifæri liggi í stöðunni eins og hún er núna. Við erum ein 6 til 7 ár frá hruninu. Síðasta kjörtímabil einkenndist af ótrúlegri björgunarstarfsemi og mér finnst dálítið oft fjallað um þá björgunarstarfsemi á svolítið ósanngjarnan hátt hér í þingsal. Það voru einfaldlega ótrúlegir hörmungatímar í íslensku efnahagslífi sem birtist í gríðarlegum halla á ríkissjóði. Ríkissjóður þurfti að stíga inn og þurfti að endurreisa fjármálakerfið, þurfti að endurreisa Seðlabankann, hjálpa Íbúðalánasjóði, þurfti að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimila, þurfti líka að grípa til ýmissa aðgerða til að koma í veg fyrir það sama í atvinnulífinu, þurfti að innheimta skatta kannski á harðneskjulegri hátt en oft áður. Virðisaukaskattur, efra þrepið, varð með því hæsta sem um getur í Evrópu og þar fram eftir götunum. Það þurfti ýmislegt að gera.

En sem betur fer erum við núna á miklu betri stað, meðal annars vegna alls þess sem gert var. Nú sjáum við að líklega var farið skynsamlega inn í fjármálakerfið og því bjargað. Þessar aðgerðir allar hafa núna, og við sjáum það, skapað eignir. Þessar eignir eru farnar að skila arði. Ríkisvaldið lagði til, með lántöku náttúrlega, eigið fé í Landsbankann sem hann á núna 100%. Landsbankinn er farinn að skila arði og Landsbankinn verður einhvern tíma mjög söluvænleg og kaupvænleg eign sem hægt er að selja á miklu hærra verði en upphaflega fjárfestingin nam og nota það til að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Seðlabankinn situr líka á fjölmörgum eignum sem hann þurfti að taka yfir og halda í rekstri, eignarhaldsfélag Seðlabankans. Þessar eignir hafa vaxið og það verður hægt að selja þær einhvern tíma og greiða niður þessar skuldir. Það liggja ýmsir möguleikar í þessu. Nú þegar efnahagslífið er að taka við sér sjáum við líka betri skattheimtu, það er meira að skila sér.

Ég held að það væri forgangsverkefni núna að ákveða og reyna að ræða saman um það hvernig við viljum einfaldlega sjá Ísland. Núna erum við ekki lengur í björgunaraðgerðum. Núna erum við farin að sjá tækifæri til að reyna að gera hlutina eins og við viljum. Það er að koma arður inn af eignunum, það kemur söluhagnaður af eignunum. Ef við erum skynsöm, mundi ég segja, notum við það til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og til að ná niður þessum gríðarlega vaxtareikningi sem er í fjárlögum á hverju ári, núna upp á um 80 milljarða. Þá höfum við meira svigrúm í rekstri. Það er einfaldlega bara gjöf sem gefur að borga niður skuldir ríkissjóðs og koma þeim á ásættanlegt plan. Við eigum að nota þann pening líka, þann arð sem kemur af þessum eignum ríkisins sem sköpuðust í fjármálahruninu, til að fjárfesta í innviðunum.

Það er eitt form af lántöku, sem fór fram í eftirleik hrunsins, að viðhaldi var frestað, starfsmenn tóku á sig gríðarlegar byrðar í auknu álagi og ég held að við sjáum núna afleiðingar af því á Landspítalanum og í heilbrigðiskerfinu með verkfalli lækna. Nauðsynlegum byggingum var frestað, við þurfum nýjan Landspítala, blessunarlega á að hefja byggingu á nýju fangelsi. Við þurfum svona hluti. Þetta er allt hluti af því sem við verðum að hafa til að geta starfrækt þjóðfélag. Ef við höfum ekki fangelsi þá getum við ekki sett fólk í það sem til dæmis svíkur undan skatti, bara svo ég nefni eitt dæmi sem leiðir augljóslega til þess að við erum að fá minni pening inn í ríkissjóð. Við erum með þannig ástand að við getum ekki og erum eiginlega eina þjóðin sem refsar ekki fólki fyrir að borga ekki skatt eða svíkja undan skatti. Það er kannski vegna þess að við höfum enga aðstöðu til að grípa til refsinga. Eina refsingin er samfélagsþjónusta. Þetta er bara svo að dæmi sé tekið. Við þurfum þetta allt saman og það hefur verið eitt form af lántöku að fresta öllum þessum framkvæmdum.

Nú höfum við tækifæri til að gera plan, ákveða að þessi arður sem er að koma inn, þessi hagnaður af eigunum, söluhagnaður og annað sem er fyrirsjáanlegur í framtíðinni — og ég mundi segja að skattur á þrotabú bankanna, hvaða skattur sem það er, falli undir þessa regnhlíf líka. Hann er óreglulegar tekjur, hann er eitthvað sem við eigum að nota á sama hátt til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, efla innviðina, fjárfesta í verkefnum sem skapa arð í framtíðinni. Þetta væri góð hugsun.

Síðan eigum við að nota svigrúmið sem skapast með þessum aðgerðum og með auknum skattheimtum til að gefa í í rekstrinum og það þurfum við að gera. Það er alveg sama hvað menn segja, þá verðum við einfaldlega að horfa á það, t.d. í heilbrigðiskerfinu, á Landspítalanum, að niðurskurðurinn var það mikill á þessum hörmungarárum í efnahagslífinu að skera þurfti niður sem nemur einu rekstrarári hjá Landspítalanum á þessum tíma, alveg sama þó að sú ríkisstjórn hafi reynt að hlífa heilbrigðiskerfinu umfram aðra þætti í ríkisrekstrinum. En við erum samt núna, þó það hafi verið gefið í í fjárveitingum til Landspítalans, um það bil 10% undir því sem fjárveitingar voru til hans á fjárlögum 2008. Við erum ekki komin á sama stað með Landspítalann og fyrir hrun.

Nú þurfum við að ákveða: Ætlum við að fara með hann á sama stað? Ætlum við að hlúa þannig að grundvallarstarfsemi í heilbrigðiskerfinu eins og Landspítalanum að hann fari aftur á sama stað og hann var 2008? Þetta er grundvallarspurningin. Og við þurfum að takast á við hana en ekki deila um það hvort milljarður núna sé vel í lagt eða ekki. Spurningin er bara hvort við ætlum að fara með hann á sama stað.

Ætlum við að fara með lyfjainnkaup á sama stað og Norðurlöndin eru á? Eftir hrunið höfum við innleitt miklu íhaldssamari stefnu gagnvart nýjum lyfjum. Við höfum leitt sömu innkaupareglur á nýjum lyfjum og Bretar hafa en Bretar hafa lyfjaiðnað þannig að þeir geta prófað ný lyf og njóta góðs af því að hafa mjög fjölbreyttan lyfjaiðnað. Við höfum ekki slíkt þannig að við höfum bara afturhaldssemina í breska kerfinu. Þetta eru spurningar sem blasa við, þetta þurfti að gera eftir hrun. Viljum við hafa þetta svona? Viljum við vera aftar á merinni en Norðurlandaþjóðirnar í innkaupum og upptöku nýrra lyfja í heilbrigðiskerfinu? Þetta tikkar inn eftir því sem tíminn líður. Þetta mun leiða til þess að við finnum áþreifanlega fyrir því að heilbrigðiskerfið okkar verður verra en annars staðar á Norðurlöndum ef við gerum ekki neitt. Það kostar peninga að gera þetta.

Viljum við að menntakerfið sé með því framsæknasta í heimi? Viljum við ekki innleiða nýjar kennsluaðferðir, rafræn kennslugögn, gera ýmislegt? Maður heyrir hér hæstv. menntamálaráðherra í ríkisstjórninni margoft lýsa því yfir að hann hafi áhyggjur af menntakerfinu. Hvert viljum við fara með það? Þetta eru spurningar sem við þurfum að svara. Ég er með nýjasta FÍB-blaðið. Þar er ágætlega rakið að vegirnir hafi dregist svo rosalega aftur úr í viðhaldi í samanburði við viðhald sem þekkist meðal annarra þjóða og ágætlega rakið hérna. Ég ætla ekki að rekja það hér, það er of tæknilegt, hvernig vegir nágrannaþjóðanna eru miklu betur gerðir, aðrir mælikvarðar en þeir sem við leggjum til grundvallar við vegalagningu. Þetta er líka eitthvað sem við þurfum að ákveða. Hvert viljum við fara með Vegagerðina? Ætlum við láta vegina drabbast niður?

RÚV er dæmi sem við ræðum hér í þingsal. Ég mundi vilja sjá öflugt Ríkisútvarp ef við ætlum að hafa Ríkisútvarp á annað borð. Ef við ætlum að hafa ríkisútvarp sem sinnir fræðsluskyldu og upplýsingaskyldu og er í fararbroddi fjölmiðlunar og í framleiðslu á innlendu efni; helst efni sem Ríkisútvarpið getur selt út um allar jarðir eins og danska ríkisútvarpið, sem hefur verið algerlega í fararbroddi í framleiðslu á efni. Það yrði gríðarleg lyftistöng fyrir innlenda menningu og bara fyrir þjóðfélagið allt. Viljum við fara þangað? Eigum við að gera það?

Almenningssamgöngur, þær eru ekkert sérstaklega til fyrirmyndar á Íslandi. Samt var settur peningur í það á síðasta kjörtímabili inni á milli allra þessara efnahagslegu hörmunga, að efla almenningssamgöngur. Nú er verið að klípa af því. Ætlum við þá ekki að efla almenningssamgöngur? Hver er stefnan?

Það er verið að klípa af Loftslagssjóði pening sem á að fara til umhverfismála. Það er hætt við uppbyggingu græna hagkerfisins, sem voru tillögur sem voru smíðaðar á þessum kreppuárum til að reyna að blása til einhverrar sóknar. Ætlar íslenska þjóðin þá ekkert að vera í fararbroddi í umhverfismálum? Stendur það ekki til?

Hvað ætlum við að gera fyrir öryrkja og lífeyrisþega? Er einhver sérstök stefnumótun í þessu fjárlagafrumvarpi um það allt saman? Ég sjálfur hef lagt mikla áherslu á það að við tökum upp notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk og ég tel það mikið mannréttindamál. Nú erum við á þeim tímapunkti að það átti að vera búið að leggja hér fyrir þingið löggjöf, frumvarp til laga, sem mundi festa í sessi notendastýrða, persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk. Þetta tíðkast alls staðar á Norðurlöndum, Bretlandi líka. Fatlaðir hafa aðgang að þessari þjónustu, geta ráðið sér aðstoðarmann og lifað sjálfstæðu lífi. Þetta frumvarp er ekki komið. Ég get þó fagnað því að það eru 65 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu til að viðhalda þeim tilraunasamningum í notendastýrðri persónulegri aðstoð sem þó hafa verið gerðir. Það er þó eitthvað. Ríkisstjórnin hefur þá ákveðið að slíta ekki þeim samningum, kippa ekki algerlega lífsgrundvelli og réttinum til sjálfstæðs lífs undan þessu fólki. En hvar er löggjöfin? Ætlum við ekki að sinna mannréttindum fatlaðs fólks? Stendur það ekki til?

Ég upplifi deiluna á Landspítalanum, læknadeiluna, sem einn stærsta vitnisburðinn um að það eru margar óútkljáðar spurningar eftir hrun og eitt stærsta verkefnið sem blasir við — og mér finnst sú deila vera áminning um — er að koma á efnahagslegum stöðugleika og gera Ísland varanlega samkeppnishæft í launum við önnur lönd. Læknar eru starfsstétt sem starfar í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Það sem gerðist í hruninu var að krónan hrundi og laun þeirra í samanburði við aðrar þjóðir þar sem þeir geta vel starfað, læknar — launin minnkuðu einfaldlega um helming, það var það sem gerðist. Stærsta verkefnið í íslensku efnahagslífi er að koma í veg fyrir að þetta gerist. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að losna við gjaldmiðilinn og taka upp myntsamstarf við Evrópu svo við losnum úr þessu umhverfi.

En það er líka annað sem þetta sýnir. Eitt stærsta verkefnið í íslensku efnahagslífi er að glíma við mjög lélega framleiðni í opinbera kerfinu. Framleiðni eykst sem sagt mjög lítið á hverja vinnustund á Íslandi. Því var ágætlega lýst á fundi með Seðlabankanum í efnahags- og viðskiptanefnd, opnum fundi með seðlabankastjóra á dögunum, þar sem einfaldlega var sagt að lítill vöxtur í framleiðni eða þjóðarframleiðslu á hverja vinnustund væri mesta áhyggjuefnið. Af hverju er ég að segja þetta í tengslum við heilbrigðiskerfið? Jú, eitt af því sem er þar deiluefni og líka í menntakerfinu er einfaldlega of mikið vinnuframlag miðað við launin sem fólk ber úr býtum. Þetta er miklu betra annars staðar. Fólk þarf að vinna minna til að fá sömu laun. Það er verið að deila um dagvinnutaxta. Þeir eru mjög lágir þannig að fólk þarf að vinna myrkranna á milli til að hafa eitthvað á milli handanna. Þetta er bara lýsandi dæmi um þetta vanrækta verkefni í íslensku efnahagslífi, við höfum ekki hugað að þessu. Og hvernig þarf að huga að þessu?

Við í Bjartri framtíð töluðum í kosningabaráttunni um þetta undir formerkjum minni sóunar, að verkefnið í íslensku efnahagslífi, í íslensku samfélagi, væri að bæta nýtingu á vinnutíma, á mannafla, á peningum. Í heilbrigðiskerfinu þurfum við einfaldlega að horfast í augu við það að við höfum ekki byggt upp hagstæðan spítala. Við höfum ekki byggt upp heilbrigðiskerfi. Við höfum ekki byggt upp heilsugæslu. Heilsugæsla er miklu skilvirkari og ódýrari leið til að sinna mörgum verkefnum í heilbrigðisþjónustu. Við leggjum litla áherslu á forvarnir. Nógu margar höfum við skrifað skýrslurnar, Íslendingar, en verkin hafa verið lítil, fyrst þessar hagræðingar í átt að betri nýtingu innan heilbrigðiskerfisins hafa ekki farið fram þá glímum við við svona vanda. Við fáum ekki nógu mikið fyrir peninginn.

Ég segi á þessum tímapunkti: Möguleikarnir eru miklir. Það væri hægt að sjá fyrir sér plan fyrir Ísland á þessum tímapunkti, plan sem fæli í sér að við mundum minnka skuldir hins opinbera niður í mjög viðráðanlega stærð, ekki kannski í einu vetfangi en með tíð og tíma. Það er hægt að selja Landsbankann einhvern tíma, fram að því njóta arðs af honum. Það er hægt að selja eigurnar í Seðlabankanum sem eiga að fara á markað og það er hægt að taka upp annan gjaldmiðil og þá þurfum við ekki skuldsettan gjaldeyrisvarasjóð með tilheyrandi vaxtagjöldum upp á 20 milljarða á ári svo að dæmi sé tekið. Ég veit að það er umdeilt en það er hægt að grípa til ýmissa ráðstafana til að greiða niður skuldirnar. Þar með skapast svigrúmið, gríðarlegt svigrúm í ríkisrekstrinum með auknum skattheimtum líka til að lækka álögur á fólk, til að blása til sóknar í atvinnulífinu, með fjölbreyttum samkeppnissjóðum, t.d. verkefnissjóðum á sviði skapandi greina, græna hagkerfinu, Tækniþróunarsjóði fyrir fjölbreyttara atvinnulíf, miklu fjölbreyttara en nú er. Það væri hægt að efna til sóknar í menntakerfinu, löggæslunni, heilbrigðiskerfinu, í rekstri þess. Þetta væri hægt og ég efast ekki um að margir í stjórnarliðinu eru að hugsa þetta svona líka; það þarf að laga þennan reikning, það þarf að skapa meira svigrúm í ríkisrekstrinum og það þarf að fara að gefa fólki einhver fyrirheit um að reksturinn verði lagaður, að við komumst aftur af stað, að það sé ljós við endann á göngunum.

Ég er viss um að einhverjir sem vilja það tala svona. Ég er viss um að einhverjir vilja setja niður plan um það hvernig við ætlum að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og allt þetta. Ég veit að margir innan ríkisstjórnarflokkanna hafa skilning á því að sveitarstjórnarmenn vilja efna til sóknaráætlunar sem þeir smíðuðu, í samstarfi við atvinnulífið, stjórnmálamenn hér inni, hagsmunaaðilar úti um allar grundir, þar sem þeir skilgreindu hver væru sigurstranglegustu verkefnin í sínu heimahéraði til uppbyggingar. Hvað vantaði mest? Hvað mundi skapa bestu tækifærin? Þetta var skilgreint. Þetta var vinna sem var farið í á síðasta kjörtímabili. Ég er viss um að margir í ríkisstjórninni vilja gera þetta, fara í þessa átt, reyna að virkja samtakamátt þjóðarinnar eins og segir í stjórnarsáttmálanum til að byggja upp farsælt samfélag eftir miklar efnahagsþrengingar.

Það sem veldur mér áhyggjum er að ég sé þetta ekki alveg. Ég sé ekki þessa sýn. Ég finn hana ekki í fjárlögunum. Ég finn hana ekki í orðum forustumanna ríkisstjórnarinnar um fjárlögin, veit ekki alveg hvert verið er að fara. Það er bara sagt: Milljarður í heilbrigðiskerfið og það er nóg, 200 í Ríkisútvarpið og það er nóg, hættið þið að gagnrýna þetta. Þetta er bara ekkert nóg. Þetta er ekki sú sýn sem ég er að tala um. Milljarður í Landspítalann er ekki að fara með Landspítalann á einhvern stað þar sem við erum með flottan landspítala. Það er bara ekki þannig. Auðvitað er eitthvert svigrúm til að gefa aðeins í í fjárframlögum en hvert ætlum við? Er þetta nóg? Er það skoðun fólks að þetta sé nóg? Ég held nefnilega ekki og við þurfum að horfast í augu við það. Það sem veldur auðvitað mestum áhyggjum er þetta með heimsmetið svokallaða, skuldaleiðréttingarnar. Ég kem einhvern veginn alltaf að þeim þegar ég hugsa um hvað þessi ríkisstjórn er að gera.

Nú hef ég farið nokkuð yfir það í mínu máli hvað mér fyndist það vera skynsamleg hugsun að taka svona óreglulegar tekjur sem skapast út af ýmsu sem gerðist í hruninu og nota þær til að fjárfesta eða greiða niður skuldir. Þegar ég segi þetta þá finnst mér að margir kinki kolli. Það eru ekki margir hér inni núna en í fjölmennari sal sé ég marga kinka kolli. Mörgum finnst þetta mjög skynsamleg nálgun. Auðvitað. Þetta eru óreglulegar tekjur og það er ósjálfbært að nota þær í rekstur. Þú notar þær til að skapa meiri tekjur, skapa meira svigrúm í rekstrinum, lækka skuldir ríkissjóðs, fjárfesta í einhverju sem skapar meiri arð. Þú þarft að vera alveg viss um að það gerist, fjárfesta í viðhaldi ekki velta því á komandi kynslóðir, nota þennan pening til að fjárfesta í því viðhaldi sem þú frestaðir í hruninu, ekki velta þessu áfram. Ekki skynsamlegt? Óreglulegar tekjur eru að fara í þetta. Það eru stærstu vonbrigðin í þessu öllu saman að þetta er ekki gert, þetta er ekki gerlegt. Náð er í mjög óreglulegar tekjur, sérstakar tekjur í þrotabúum gömlu bankanna, sem eru tekjur sem ríkisstjórnin segir mjög óljóst að eigi kannski að duga í fjögur ár, skila 20 milljörðum á ári. En ef búin verða gerð upp þá náttúrlega kemur þessi peningur ekki inn, en þá á að leggja annan skatt á búin, svokallaðan útgönguskatt mögulega og þá fer hann í fjármögnunina á þessari skuldaleiðréttingu.

Það gerðist í fjáraukanum að arðurinn af Landsbankanum, sem ég var að tala um hér áðan, sem er einn af eigum ríkissjóðs, og er eitthvað sem er að skila arði — og kannski viljum við bara eiga hann en ég held að það væri skynsamlegast að selja hann á hagstæðum tímapunkti. Og það var bara á milli 1. og 2. umr. um fjáraukann þá er það bara ákveðið sisvona að taka þessar arðgreiðslu, upp á 16 milljarða, úr Landsbankanum og bara í skuldaleiðréttinguna. Við skulum ekkert ræða þessa pælingu um að arðurinn eigi að fara í að borga niður opinberar skuldir, búa til meira svigrúm. Við skulum ekkert ræða það, við setjum þetta bara þarna, skuldaleiðréttinguna. Og hvað er hún? Er hún eitthvað að auka svigrúm í ríkisrekstrinum á komandi árum? Ég bara sé það ekki. Er einhver þörf á henni? Er hún í samræmi við einhverja sýn um flott heilbrigðiskerfi og menntakerfi á heimsmælikvarða? Erum við að fara eitthvað með þessu? Ég er náttúrlega þeirrar skoðunar að strax eftir hrun var alveg augljóst að það þurfti að gera ýmislegt, það var fullkomlega augljóst, það blasti við sviðin jörð. Það þurfti að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna. Sumir þingmenn hafa verið iðnir við að vitna í mín orð frá 2009 þar sem ég kallaði eftir aðgerðum. Ég er mjög stoltur af þeim orðum. Ég kallaði eftir aðgerðum eins og mjög margir þingmenn út af skuldavanda heimilanna.

Síðan voru lagðir úr einkageiranum og úr ríkisvaldinu um það bil 300 milljarðar í það verkefni og núna eru skuldir heimilanna komnar undir 100%. Ég held að það sé að nálgast 96–97%, komnar undir 100% af landsframleiðslu. Og það er svolítið sérkennilegt að hæstv. fjármálaráðherra réttlætir þessar aðgerðir með því meðal annars að hann vilji koma skuldahlutfallinu undir 100% af landsframleiðslu. En þær eru þegar komnar þangað og aðgerðirnar eru ekki byrjaðar. Ég er svoddan áhugamaður um þetta, ég skil ekki af hverju er verið að verja þessum peningum svona. Ég skil það ekki. Ég held einfaldlega að menn séu ekki að fatta að við erum komin með efnahagslífið á allt annan og betri stað en var 2009. Þessi aðgerð er enn þá hugsuð eins og það sé 2009 eða 2010.

Hvernig er þetta? Skuldir heimilanna eru nú um 1.788 milljarðar, voru það um síðustu áramót. Eignir heimilanna eru tæplega 4.000 milljarðar um síðustu áramót. Heimilin eiga 3.989 milljarða, skulda 1.788 milljarða þannig að skuldir sem hlutfall af eignum heimilanna eru 45%. Þetta sama hlutfall var 1. janúar 2008, áður en hrunið varð, 40% þannig að skuldir versus eignir, hlutfall skulda af eignum núna er 45%, var 40%. Þetta hlutfall fór upp í 54% í upphafi árs 2011. Það var áhyggjuefni. Ég mundi segja að það hefði þurft að laga það, það var svolítið mikið, en er komið niður í 45%, hefur lækkað um 10%, þetta hlutfall. Þegar við skoðum íbúðaskuldir sérstaklega og fasteignir þá eru íbúðaskuldir heimilanna um síðustu áramót 1.174 milljarðar en verðmæti fasteignanna er 2.805 milljarðar. Það eru eignir á bak við þetta allt saman og það er séreignastefna og hefur verið lengi á Íslandi þannig að fólk skuldsetur sig til að eignast fasteignir. Og hlutfall íbúðaskulda af heildarvirði fasteigna er 42%. Þetta hlutfall var 35% fyrir hrun en fór hæst upp í 51%. Þetta er allt á réttri leið.

Þessi hlutföll eigna og skulda hjá heimilunum eru vissulega í hærri kantinum en þetta er allt á réttri leið, þetta er að batna. Þetta er að batna algerlega án þess að við þurfum að fara að setja 80 milljarða plús, vegna þess að aginn er ekki meiri en svo í ríkisfjármálunum að menn gera ekki einu sinni ráð fyrir kostnaði Íbúðalánasjóðs í komandi fjárlögum, sem verður á bilinu 10–15 milljarðar, þannig að menn eru að fara að leggja hátt í 100 milljarða í verkefni sem markaðurinn er að mestu leyti að leysa. En með þessu er ég ekki að segja að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af þeim sem sannarlega geta ekki borgað lánin sín, þeim sem eru að glíma við allt of háa greiðslubyrði eða þeim sem sjá ekki fram úr neikvæðri eiginfjárstöðu nokkurn tíma. Um að gera að finna þann hóp og mér fannst okkur miða ágætlega hér í þessum þingsal og í þingnefndum á síðasta kjörtímabili við að finna þann hóp. Það er hægt að hjálpa þessum hópi með miklu minni tilkostnaði. Mér finnst það mikið áhyggjuefni að á þessum tímapunkti, þegar við eigum að vera að nota þessar óreglulegu tekjur til að bæta stöðu ríkissjóðs, til að auka svigrúmið svo að við getum farið að gera almennilega hluti í rekstri velferðarkerfisins og lífeyriskerfisins og þar fram eftir götunum, þegar menn loksins ná í þessar tekjur og þessar tekjur eru að koma inn, þá fara þær allar í þetta verkefni, þessa skuldaleiðréttingu.

Ég velti fyrir mér: Á þetta að vera svona? (ÁsmD: Já.) Erum við að tala um það að í næstu kosningabaráttu verði kannski kominn inn raunhæfur möguleiki á því að sala Landsbankans skili virkilegum tekjum í ríkissjóð. Mun þá Framsóknarflokkurinn kannski lofa einhverju svona aftur? (ÁsmD: Það verður svo fín verðbólga.) — Já, það verður fín verðbólga, já. Ég er alveg viss um að mönnum gæti hugkvæmst eitthvað annað popúlískt til að nota þessa peninga í. Ég vil minna hv. þingmann, sem hér greip fram í fyrir mér, á að verðbólgan hafði áhrif á fleiri en þá sem skulduðu verðtryggð lán. Hún hafði líka áhrif á þá sem leigja og líka áhrif á þá sem einfaldlega þurfa að lifa og kaupa vörur. Ég vona að hv. þingmaður sé ekki að leggja til að í hvert einasta skipti sem verður verðbólguskot þá verði það bætt með fjármunum úr ríkissjóði. Ég mundi segja að það væri miklu mikilvægara að laga grundvöllinn að íslensku efnahagslífi, að laga forsendurnar og þarna greinir á, þarna skilur að.

Annars vegar höfum við stjórnmálaafl sem lítur svo á að það sé réttlætanlegt, jafnvel á tímum þegar hlutirnir eru að batna og við horfum jafnvel fram á ákveðna þenslu, að greiða hluta af einkaskuldum út af verðbólguskoti. Það er annars-vegar- stefna. Hins vegar höfum við einfaldlega-stefnu, eins og okkar í Bjartri framtíð og annarra, sem viljum einfaldlega laga grundvöllinn, reyna að koma í veg fyrir að svona verðbólguskot verði og auka ábyrgð. Það eiga allir að vita að það er óöruggt efnahagslíf á Íslandi. En svo var líka ýmislegt gert. Þannig að frammíköll hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar róa mig ekki. Mig grunar að þessi sýn sem ég hef verið að lýsa um að þessar tekjur sem geta komið inn verði notaðar til að bæta stöðu ríkissjóðs og þessi sýn um að við notum síðan þetta aukna svigrúm í ríkisrekstrinum til að bæta menntakerfið, til að bæta heilbrigðiskerfið, sem er fyrir okkur öll og er fyrir öll heimili — mig grunar að þessi sýn eigi ekkert upp á pallborðið. Mig grunar að þetta verði ekki ofan á heldur munum við sjá það á þessu kjörtímabili að fjárlög verða sett einhvern veginn fram og síðan verði það einhver bútasaumur; upphæðum hent í þetta, upphæðum hent í hitt en stóru upphæðirnar sem raunverulega skipta einhverju máli og mundu koma okkur eitthvað áleiðis, mundu bæta þetta samfélag í þágu komandi kynslóða — gera þetta samfélag sjálfbærara, gera þetta samfélag samkeppnishæft, svo að við þyrftum ekki að glíma við læknaverkföll — þær stóru fjárhæðir, mér sýnist að ef þeir flokkar sem nú ráða fá að ráða áfram muni þær allar fjúka út um gluggann.