144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:55]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi deili ég ekki þeirri skoðun hv. þingmanns að þinghlé sé frí. (Gripið fram í.) — Já, þinghlé er bara hlé á þingfundum Alþingis og það á ekki að vera einkenni á þingstörfum að þingfundir séu alltaf í gangi. Það er fjölmargt sem ég ætla sem þingmaður að gera í þinghléinu sem verður um jólin eins og að undirbúa þingmál fyrir vorþingið bara svo að því sé haldið algerlega til haga.

Ég tel ekki að læknum sé gerður einhver sérstakur greiði með því að þingfundir séu hér áfram. En ég vona að læknar skynji og þjóðfélagið allt að áhyggjur mjög margra eru mjög miklar hér í þingsal af læknaverkfallinu. Ég varði drjúgum hluta ræðu minnar hér áðan í að reyna að útskýra hvað þyrfti að gera til að leysa þetta ástand í heilbrigðismálum varanlega og til framtíðar.

Ég vil ekki gera lítið úr því að ég held að við verðum vitni að læknaverkfalli núna vegna ákveðinna vonbrigða. Það er ekki verið að tala skýrt í þessu. Fólk er að missa ákveðna von um að heilbrigðiskerfið verði endurreist duglega.