144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:42]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég svitna bara þegar hv. þingmaður talar um allar þær nefndir sem hann er í. Ég er í einni nefnd og finnst það alveg nóg, að reyna að komast yfir allt sem þar fer fram og líka að fylgjast með öðru sem er að gerast. Ég skal fúslega viðurkenna, og hef sagt það hér í ræðustól, að það er yfirþyrmandi starf að vera þingmaður, finnst mér, sérstaklega þegar maður kemur svona nýr inn. Ég hef ekkert endilega svör á reiðum höndum, hvernig við getum gert þetta betur.

Þegar ég var í bæjarstjórn í Grindavík þá unnum við hins vegar öll saman sem ein heild, hvort sem við vorum í minni hluta eða meiri hluta. þetta gekk alveg ótrúlega vel. Auðvitað tókumst við á, en það fer ofboðslegur tími í þessi fjárlög. Þetta eru yfir þrír mánuðir. Ég held að það sé hægt að gera þetta öðruvísi. Ef við byrjum fyrr, allir koma að þessu og meira samráð er haft út í samfélagið, þá getum við bætt vinnubrögðin enn meira. Það er mikið kallað eftir því úti í samfélaginu, því hefur maður kynnst á ferðum sínum um kjördæmið. Fólk vill fá meira samráð, fá að taka þátt í því sem er að gerast.