144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður efnir hér til mjög þarfrar umræðu um stöðu útlendinga eða aðkomumanna í íslensku samfélagi og þeirrar lagaumgerðar sem við höfum smíðað okkur. Þetta er mikilvæg umræða. Það er hins vegar ekki rétt hjá honum að hún hafi ekki verið tekin áður. Ég man eftir henni margoft í þessum sal og í tíð síðustu ríkisstjórnar var efnt til mikillar vinnu um þessi mál. Skipuð var nefnd, starfshópur, sem síðan efndi til samstarfs við nánast alla þá aðila sem koma að þessum málum hér á landi og á grundvelli ítarlegrar skýrslu sem starfshópurinn sendi frá sér var unnið lagafrumvarp sem var lagt fyrir Alþingi. Því miður náði það ekki fram að ganga, en á grundvelli þess er nú unnin frekari vinna til að laga þær brotalamir sem óneitanlega eru í löggjöfinni hjá okkur.

Annað sem mér finnst hv. þingmaður kannski ganga einum of langt með í sínum fullyrðingum er að það heyri til undantekninga, eða það mátti skilja hann þannig, að fólk fái að setjast hér að og koma hingað til starfa. Það eru náttúrlega stórir vinnustaðir sem eru einvörðungu skipaðir útlendingum að heita má og sums staðar er það svo, af því að vikið er að íslenskunni og fjölbreytninni þá eru mismunandi tungumál og þar á meðal tungumál okkar hluti af þeirri fjölbreytni í heiminum, en þannig er það á sumum stöðum að íslenskan skilst ekki.

Ágætur fjölmiðlamaður segir frá því nýlega að hann hafi komið að Gullfossi og ætlað að kaupa sér pulsu, þar fékk enginn skilið hann. Hann gat ekki pantað sér pulsu á sínu móðurmáli. Þetta eru hlutir sem mér finnst alveg óhætt að ræða líka. Auðvitað eiga þjónustustaðir, (Forseti hringir.) ferðamannastaðir á borð við Gullfoss og Geysi, að vera opnir fyrir því að við fáum að tala okkar tungumál þar líka.