144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:01]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hefur hv. þingmaður talsvert meiri þingreynslu en sá sem hér stendur, en mín upplifun er að helsta tæki okkar hv. þingmanna sem erum ekki í meiri hluta sé fyrst og fremst að halda málinu lifandi, ræða það og halda rökunum fyrir því lifandi og leggja fram breytingartillögu sem nú þegar hefur verið gert. Ég held að það sé okkar helsta verkefni að passa að þetta týnist ekki, sökkvi ekki í allri talnahrúgunni í fjárlagavinnunni.

Varðandi hvað gerist ef þetta fjármagn kemur ekki þá held ég einna helst að við horfum aftur í það ástand sem var áður en tekið var á þessum málum á seinasta ári sérstaklega, þ.e. biðtími muni lengjast og (Forseti hringir.) við munum eiga í meiri vandræðum með að vinna úr umsóknum. Það hefur auðvitað mjög slæmar afleiðingar fyrir kerfið okkar og (Forseti hringir.) þjónustuna og ekki síst fyrir einstaklingana sem eru þar.