144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þar erum við sammála. Getan er nefnilega til staðar en viljinn til þess að taka inn tekjur er það ekki, alla vega ekki þaðan sem við sjáum að þær geta komið, eins og var nefnt; veiðigjöldin, auðlegðarskattur eða hvað það nú er. Það er auðvitað áhyggjuefni að markvisst sé verið að veikja tekjustofna ríkisins um tugi milljarða vitandi það að heilbrigðiskerfið, innviðirnir í ferðaþjónustu, menntakerfið o.s.frv þarf enn þá gríðarlega fjármuni. Það er bara þannig. Það tóku allir á eftir hrun og löngu fyrir hrun hafði víða verið skorið markvisst niður, þetta fylgir því ekki aðeins hruninu. En þetta fólk tók á með okkur í hruninu og það beið eftir því að það færi að upp við. Nú hefur það gerst en þrátt fyrir einhverja innspýtingu í heilbrigðiskerfið er það ekki nándar nærri nóg. Þeir segja: Það eru ekki til peningar, það þarf að ná hallalausum fjárlögum. En það er ekki, eins og hv. þingmaður segir réttilega, vilji til að sækja þá.