144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er já, og það hef ég gert. Hér var til dæmis samþykkt þingsályktunartillaga varðandi Húnavatnssýslur á síðasta þingi og margar nefndir hafa verið starfandi, Vestfjarðanefnd, norðausturnefnd og norðvesturnefnd og hvað þetta heitir allt saman.

Auðvitað er það atvinnan sem skiptir máli, atvinnan er náttúrlega undirstaða velferðarinnar. Síðan er heilbrigðisþjónustan og menntastofnanirnar mjög mikilvægar stoðir. Aðgengi að þessu verður allt að vera til staðar til að búsetuskilyrði séu vænleg.

Hv. þingmaður nefndi internetið. Ég hef fagnað því að meiri hluti fjárlaganefndar er að leggja til ágætisviðbót í fjarskiptasjóð því að það er augljóslega í nútímanum mjög mikilvægt byggðamál að efla fjarskipti. Það hefur áhrif á allt saman, vinnuna og tengsl við samfélagið að hafa gott aðgengi að internetinu, eins og hv. þingmaður nefndi áðan.

Ég bý á Suðurnesjum, ég horfi á það sem þar hefur verið að gerast, ég fylgist með því. Það stendur hjarta mínu mjög nálægt en ég horfi líka til annarra byggða. Tökum til dæmis þær byggðir sem eru í prógrammi hjá Byggðastofnun sem hefur fengið heitið Brothættar byggðir. Það er afar mikilvægt verkefni og þar er verið að nálgast byggðamálin á frumlegan og óvenjulegan hátt með þátttöku íbúanna. Þar þurfum við til dæmis að skoða: Hvernig getum við komið til móts við sveitarfélög eins og Skaftárhrepp, sem er ekki sjávarbyggð, á sama hátt og við gerum þegar við úthlutum byggðakvótanum til sjávarbyggða í vanda?