144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla hér í seinni ræðu að fara aðeins ofan í suma málaflokka sem mér finnst mikilvægir og drepa á einhverju nýju líka.

Einn stærsti útgjaldaliðurinn eru skuldaleiðréttingarnar sem eru mjög dýrar fyrir ríkissjóð en dreifast á mjög mörg heimili. Ég átti hér í dag umræðu við hæstv. heilbrigðisráðherra þar sem ég spurði hvort hann væri ekki sammála mér í því að við myndum vilja nýta meiri peninga í heilbrigðiskerfið eins og staðan er í dag og hann tók undir það. Þá spurði ég hvort hann teldi þá að þessum 80 milljörðum á fjórum árum, 80 milljörðum plús, væri vel varið í skuldaniðurfellingu á sama tíma og við horfum á ýmsa innviði veikjast. Ég fékk þá það svar að menn væru í stjórnarsamstarfi og menn gefi að einhverju leyti eftir og finni málamiðlun. Ég vissi það nú en mér finnst mjög merkilegt að í raun erum við þá með kosningaloforð framsóknarmanna í boði Sjálfstæðisflokksins.

Við ræddum það í mínum flokki að ef sú staða kæmi upp að okkur byðist að fara í ríkisstjórn og þetta væri undir, þessi skuldaniðurfelling, þá færum við ekki í ríkisstjórn, vegna þess að við teljum að þessum peningum sé illa varið í þessa aðgerð og að kosningaloforð séu líka úrelt fyrirbæri. Flokkar eiga að vera að tala um stefnu og framtíðarsýn og hvaða markmið þeir hafa, en að lofa kjósendum peningum úr ríkissjóði sem þeir greiða sjálfir, mér finnst þetta vera mjög brenglað og ég er mjög ósátt við þessa forgangsröðun ríkisstjórnarinnar hvað varðar skuldaniðurfellinguna.

Ég geri ekkert lítið úr því að margir hér inni — sem oft sitja inni í þessum sal en eru kannski ekki hér núna — telja að þetta hafi góð áhrif, sé einhvers konar leiðrétting en ég er ekki sammála því. Ég vil ekki gera lítið úr skoðunum þeirra sem trúa því, en við þyrftum þessa peninga í annað. Við þyrftum að greiða niður skuldir ríkissjóðs og við erum að senda börnunum okkar og unga fólkinu reikninginn. Mér finnst að við verðum að taka ábyrgð á því klúðri sem gerðist á okkar vakt, að við sendum reikninginn ekki inn í framtíðina.

Síðan hefur orðið umræða, meðal annars í þessum sal og úti í þjóðfélaginu, um að eitthvað óeðlilegt væri við það að við, sem höfum gagnrýnt skuldaniðurfellinguna, talað gegn henni og greitt atkvæði gegn henni, hefðum sótt um skuldaniðurfellingu. Frammíkallið „Icesave“ hefur verið vinsælt hér, ég hef heyrt það í hinum ýmsu umræðum, en nú er komið nýtt frammíkall og það er: Sóttir þú um? Ég verð aðeins að ræða þetta.

Fyrir það fyrsta er um að ræða aðgerð sem öllum er heimilt að sækja um. Og ef menn ætla að bjarga þessum peningum úr ríkissjóði, nýta þá í eitthvað annað, þá sækja þeir að sjálfsögðu um, vegna þess að um 80 milljörðum verður einfaldlega dreift til þeirra sem sóttu um. Segjum að ég sæki um og einhverjir hundraðþúsundkallar komi í minn hlut, þá fara þeir ekki til annarra heimila. Þá get ég ákveðið að afþakka — þessu er ekki deilt út aftur til heimilanna, þeir peningar verða þá væntanlega eftir í ríkissjóði — eða ég get ákveðið að fá þessa peninga, nýtt þá í að lækka lánin mín eða í verkefni sem stjórnvöld eru ekki að sinna. Það kemur í sjálfu sér engum við hvað ég geri. En mér finnst það ekki boðleg umræða hér í þessum þingsal að þeir sem tala gegn skuldaniðurfellingu þurfi að svara fyrir það sérstaklega að þeir sæki um. Er þá allt í lagi að tala fyrir því að 80 milljarðar fari úr ríkissjóði á fjórum árum, greiða atkvæði með því, sækja síðan um og þiggja það? Er það þá alveg eðlilegt? Við skulum aðeins koma okkur upp úr þessu, þetta er ekki það sem málið snýst um.

Mig langar líka aðeins til að tala um framkvæmdina við fjárlagagerðina. Það var eitt sem vakti athygli og kom okkur svolítið í opna skjöldu, minni hlutanum, og það voru þessir safnliðir sem allt í einu dúkkuðu upp. Búið var að taka þá frá fjárlaganefnd og setja það að miklu leyti inn í ráðuneytin, jafnvel í sjóði líka. Það er gert til að reyna að gæta jafnræðis. Það á ekki að skipta máli hvort fólk þekki einhvern í fjárlaganefnd eða hafi aðgang að því fólki sem þar situr; og þá í meiri hluta fjárlaganefndar, því að minni hlutinn hefur kannski ekki alveg þau áhrif sem hann mundi vilja. Þarna koma allt í einu inn mjög margir liðir sem heyra undir — þetta eru félagasamtök og hafa verið á safnliðum ráðuneytanna. Ég get ekki séð, á skýringartextum eða öðru, að þetta sé endilega vel ígrundað, þetta virðast vera geðþóttaákvarðanir. Þó að þarna inni séu margir liðir sem ég tel að eigi rétt á styrk úr ríkissjóði þá mundi ég vilja að það færi eftir öðrum leiðum og að vinnubrögðin væru faglegri en þetta. Mér fannst ég sjá sömu tilhneigingu þegar hæstv. forsætisráðherra var með útdeilingar af liðnum um græna hagkerfið í ýmis verkefni sem snúa að menningararfi. Þar var farið fram hjá þeim sjóðum sem eru til og eiga að tryggja jafnræði og ákveðið verklag þannig að allir standi jafnfætis. Mér finnst það vinnulag ekki gott og við þurfum að ræða í fjárlaganefnd hvort þetta er það sem koma skal. Þá þurfum við í minni hlutanum líka að vera viðbúin, við höfum þá væntanlega okkar skoðanir á því hvernig eigi að fara með þetta.

Af því að stjórnvöld hafa mikið talað um agann, nota orð eins og agi og aðhald og stöðugleiki, þá tek ég það sérstaklega fram í nefndaráliti 3. minni hluta, sem hefur síðan verið í fréttum, að fjárlagaliður sem heitir Ríkisstjórnin hefur vaxið mjög mikið. Það er grundvallaratriði þegar maður gerir kröfur til annarra að maður — nú langar mig að sletta á ensku, „Put your money where your mouth is“ — lifi eftir því sem maður segir, held ég að maður segi, þ.e. að maður geri ekki meiri kröfur til annarra en maður gerir til sjálfs sín. Þegar þessi liður vex ár frá ári — hefur hækkað um 34% á nokkrum árum — hlýtur maður að spyrja hvort þetta tal um aga og aðhald sé ekki frekar innantómt.

Fjárlagafrumvarpið er stærsta mál á hverju ári, eitt af stærri málunum, í raun stefna ríkisstjórnarinnar, hvernig hún vill forgangsraða fjármunum. Ég mundi vilja sjá meiri og dýpri umræðu um fjárlagafrumvarpið í fjölmiðlum, meiri greiningar. Ef við mundum eyða tímanum og orkunni sem við setjum í að lýsa til dæmis HM í fótbolta — klukkutímarnir sem fara í greiningar og skýringar og umræður — í umræður um samfélagsmál og setja sama kraft í það þá gæti það breytt miklu. Ég finn, sem eðlilegt er, að í umræðum um fjárlagafrumvarpið átta margir sig ekki á breytingartillögum ríkisstjórnarinnar — hvað er það? Svo eru það breytingartillögur meiri hluta og síðan kemur minni hlutinn með sínar breytingartillögur — hvað er fjárlagafrumvarp? Svo koma fjáraukalögin inn í þetta — hvað er það? Ég verð að viðurkenna að þegar ég settist á þing þá var ég ekkert allt of klár í þessu og var í raun að átta mig á því hvað fjáraukalög væru í fyrsta skipti en er þó þokkalega áhugasöm um þjóðfélagsumræðuna.

Ég veit ekki alveg hvernig við eigum að breyta þessu. Hér stöndum við og ræðum hvert við annað í minni hlutanum, við erum ekki einu sinni í samtali við meiri hlutann. Þetta er meira svona: Fara þau ekki að klára þetta? Við þurfum einhvern veginn að gefa þeim þessa þrjá, fjóra daga svo að þau fái útrás. Umræðan á ekkert að snúast um það. Við ættum hér að vera að spyrja spurninga og fá svör við þeim. En oft eru fjölmiðlar betri í því að fá svör frá stjórnvöldum og meiri hlutanum en við hér á þingi. Ég veit ekki alveg hvort við tölum ekki nógu skýrt, þingmenn, hvort við tölum ekki mannamál í umræðum um fjárlögin. Þetta eru svo margar breytingar, t.d. hækkun á virðisaukaskatti á matvæli og menningu, menntamálin, að 25 ára og eldri sé gert erfitt fyrir að klára stúdentspróf eða fara í framhaldsskóla — það er svo margt í þessu og við ættum ekki að vera að ræða neitt annað þessa dagana.

Auðvitað fá einstaka mál athygli, það er ágætt að mikið er rætt um RÚV. En það er svo margt í heilu fjárlagafrumvarpi, endalausir vinklar og hægt að velta þessu fram og til baka og þetta er áhugavert. Þetta er eitthvað sem snertir okkur öll. Ef okkur finnst fjárlagafrumvarpið ekki áhugavert og að ekki sé hægt að matreiða það á áhugaverðan hátt fyrir fólk þá veit ég ekki hvað. Þetta kemur okkur öllum við.

Við í minni hlutanum gerum breytingartillögur en rétt er að benda á að það er svolítið erfitt þegar búið er að leggja fram fjárlagafrumvarp sem við eigum enga aðkomu að. Ríkisstjórnin kemur með sínar breytingartillögur, meiri hlutinn kemur með sínar breytingartillögur og svo reynum við einhvern veginn að gera breytingartillögur ofan á það allt. Það verður auðvitað að taka þeim með þeim fyrirvara, fjárlagafrumvarpið væri bara allt öðruvísi ef ég hefði fengið að semja það. Breytingartillögur minni hlutans byggjast að miklu leyti á því sem fyrir er, þ.e. fjárlagafrumvarpinu sjálfu, breytingartillögum ríkisstjórnarinnar og breytingartillögum meiri hlutans.

Breytingartillaga sem ég mundi vilja gera er til dæmis að afturkalla skuldaniðurfellinguna, en það er hægara sagt en gert. Ég mundi vilja gera breytingartillögu sem sneri að því að ríkisstjórnin hefði ákveðið að hætta ekki við að hækka virðisaukaskatt á gistingu sumarið 2013. Það er ekki hægt að gera þannig breytingartillögu. Við erum því að tala um veruleika sem byggir á því að stjórnvöld hafi tekið alls konar ákvarðanir og við erum að reyna að hnika einhverju í rétta átt, það er meira þannig. Mér finnst þessar breytingartillögur allar mjög mikilvægar og ég vona að við náum að minnsta kosti einhverjum þeirra í gegn.

Ég er mjög hissa á því að ekki hafi verið sett meira fé til ríkissaksóknara, mér finnst það embætti hafa talað fyrir því af sannfæringu að meira fé þyrfti í þann málaflokk. Stór hluti þeirra brota sem þar eru rannsökuð snúa að kynferðisofbeldi, þannig að þetta er mikilvægt.

Við teljum að almenn sátt sé meðal þjóðarinnar um að greiða nefskatt á næsta ári til RÚV sem er jafnhár og hann er í ár, og ég hef ekki orðið vör við annað en að fólk vilji styðja við Ríkisútvarpið.

Að sjálfsögðu vantar alltaf fé í heilbrigðismálin. Okkur verður tíðrætt um Landspítalann sem eðlilegt er, en við megum ekki gleyma því að stofnanirnar eru fleiri. Við erum til dæmis með Sjúkrahúsið á Akureyri en landlæknisembættið hefur beinlínis lýst því yfir að ástandið á geðdeildinni þar sé ekki ásættanlegt. Við því þarf að bregðast. Við erum með heilbrigðisstofnanir víða um land sem eiga í vanda, þannig að það er af mörgu að taka.

Ef við horfum á tekjuhliðina finnst mér stjórnvöld hafa farið í ýmsar aðgerðir að illa athuguðu máli. Ég held að einhverjir stjórnarliðar hafi næstum því viðurkennt að kannski hafi það verið vanhugsað að hækka ekki virðisaukaskatt á gistingu í fyrra upp í 14% á sama tíma og við erum að bögglast með það hvernig við ætlum að standa undir uppbyggingu innviða; eins og staðan er í dag verða tæpar 150 milljónir settar í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða á næsta ári. Verði áform um náttúrupassa að veruleika þá fáum við engar tekjur af honum fyrr en seint á næsta ári. Ég átta mig því ekki alveg á því fyrir hvaða peninga á þá að byggja upp innviðina.

Það er eitthvað sem ég þyrfti að skoða betur og kannski óábyrgt að tala hér í ræðustól um það, en mér finnst við hafa sett mjög mikla peninga í markaðssetningu á Íslandi. Ég er farin að velta því fyrir mér hvort við ættum ekki frekar að nota þá peninga í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og uppbyggingu til að geta tekið á móti öllum þeim ferðamönnum sem koma. Það er líka erfitt að meta hvernig markaðssetningin skilar sér. Ein kvikmynd sem er tekin upp á Íslandi getur haft mun meiri áhrif en markaðssetning á netinu og eitt eldgos hefur líka meira að segja. Ég velti því fyrir mér hvort við séum kannski að taka við ferðamönnum umfram það sem við getum og hvort peningunum væri þá ekki betur varið í að taka vel á móti ferðamönnunum, tryggja til dæmis salernisaðstöðu, sem er víða í algjörum ólestri, og tryggja að ágangur á landið verði ekki óafturkræfanlegur.

Ég held að ég láti þetta gott heita. Ég vil hvetja fólk til að lesa nefndarálit 3. minni hluta og líka 1. og 2. minni hluta yfir jólin og kynna sér málið. Ég vona að við náum fram einhverjum af baráttumálum okkar. Ég er samt ekkert mjög bjartsýn og ég sakna þess að eiga ekki í samtali hér við stjórnarliða, þeir eru það margir að þeir eiga að geta skipt þessu á milli sín. Ég vona að þeir séu að horfa á sjónvarpið en ég mundi gjarnan vilja hafa fleiri stjórnarliða hér til að við gætum átt þetta samtal og að þeir reyni að réttlæta fyrir okkur af hverju fjárlagafrumvarpið lítur svona út en ekki einhvern veginn öðruvísi. En því er ekki fyrir að fara.