144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hann kom inn á mörg mjög mikilvæg mál. Meðal annars fjallaði hann um Bankasýsluna og þá stöðu sem upp er komin. Það eru enn mörg óleyst mál sem er hlutverk Bankasýslunnar að leysa og ég deili áhyggjum með hv. þingmanni og hef áhyggjur af framtíðinni þegar hlutverk og verkefni Bankasýslunnar eru færð undir fjármálaráðuneytið. En nú höfum við kallað eftir því á milli umræðna að fá Bankasýsluna fyrir hv. fjárlaganefnd til að ræða áætlun á arðgreiðslum, því að nú getum við áætlað þær nákvæmar en gert var fyrr á árinu. Eins viljum við ræða við fjármálaráðuneytið um hlutverk Bankasýslunnar og hver framtíðarskipan hennar verður.

Í fjárlagafrumvarpinu eru 35,5 milljarðar undir sjóðstreymi ríkissjóðs vegna sölu hlutabréfa og eignarhluta og í 6. greinar heimildinni er heimild til að selja hlut í Arion banka, Íslandsbanka og 70% hlut í Landsbanka og svo eignarhlut í sparisjóðnum þannig að ég geri ráð fyrir að það passi saman. Ef ég skil þetta rétt er ekki gert ráð fyrir söluhagnaði heldur rennur féð bara í sjóðstreymið og ef salan gengur ekki eftir þarf náttúrlega að taka lán til að sjóðstreymið gangi upp.

Ég spyr hv. þingmann: Áttar hann sig á því hvað menn eru að hugsa varðandi sölu á hlutunum í bönkunum? Getur verið að það sé alls ekki rétti tíminn núna til að ná góðum samningi hvað það varðar?