144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:04]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það má líka bæta við að síðasta ríkisstjórn stóð frammi fyrir hruni og þurfti að setja í bakkgír, niðurskurðargírinn, í einhvern tíma. Nú er verið að gefa aðeins í en þá er verið að bæta upp svo mikinn uppsafnaðan kostnað sem menn hafa sparað sér, sem menn spara sér alltaf þegar tekjurnar minnka.

Nú stöndum við frammi fyrir því að ríkisstjórnin hefur meðal annars að leiðarljósi skilvirkara skattkerfi og tillögur sem liggja frammi snúast um að afnema ýmsar undanþágur í virðisaukaskatti, ferðaþjónustu o.fl. Samt sem áður virðist vera eitthvað erfitt hjá þessari ríkisstjórn að afnema undanþáguna á laxveiði og silungsveiði og veiði sem er skilgreind sem fasteignaleiga. Við erum samt sem áður með fasteignaleiguatriði í virðisaukaskattslögunum sem segir að þrátt fyrir fasteignaleigu eins og á (Forseti hringir.) hótelherbergi þá sé ekki veitt undanþága. Alveg nákvæmlega sama væri hægt að gera með veiðileyfin. Þetta er 2 milljarða kr. skattstofn sem klárlega er hægt að ná í. (Forseti hringir.) Með því væri hægt að ná inn, ég veit ekki, kannski 300 millj. kr. (Forseti hringir.) sem færu alla vega í púkkið.