144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Það er nefnilega hægt að segja svo margt um þetta mál sem verið var að ræða, þ.e. Ríkisútvarpið okkar, og ekki að ástæðulausu og loksins er verið að boða hér til mótmæla vegna þess að fólk er að átta sig á því hversu alvarlegt þetta er með RÚV.

Ég hef haft þá skoðun á því að mér finnst meiri hluti fjárlaganefndar fara langt út fyrir sitt valdsvið. Ég er ekki viss um að það sé hreinlega heimild til að skilyrða fjárveitingu með þeim hætti sem gert er í tillögu meiri hluta fjárlaganefndar þar sem segir, með leyfi forseta: Ef mat ráðuneytisins verður það að þær áætlanir dugi ekki til þess að ná markmiðum um sjálfbæran rekstur stofnunarinnar er áformað að fjárheimildin verði felld niður í fjáraukalögum fyrir árið 2015.

Þá hugsar maður með sér: Ef eitthvað kemur upp á á miðju ári og gengur ekki eftir er áfallið tvöfalt ef það á svo á að hirða til baka þessa fjárveitingu vegna þess að eitthvað gengur ekki upp. Þetta er mjög sérstakt.

Sama má segja með arðgreiðslur Isavia, það er svipað inngrip af hálfu fjárlaganefndar. Hv. þingmaður fór yfir mjög margt og meðal annars framhaldsskóla og háskóla. Mig langar til þess að inna hana eftir því hvað varðar fækkun nemenda og 25 ára regluna hvort hún sér fyrir sér t.d. að fangar fengju þessa undanþágu, væri það hægt eða í hvaða stöðu setti það fólk sem er eldra en 25 ára? Við höfum verið að tala svolítið um að betrunin felist meðal annars í því að mennta fanga. Akkúrat þessi vinkill hefur ekki komið fram hjá hæstv. menntamálaráðherra. Sama má svo sem segja um skiptingu fjármuna til háskólanna.