144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:40]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni í fyrsta lagi varðandi sjúklingagjöldin almennt og að við erum hér komin út á hálli braut en við þekkjum í flestum okkar samanburðarríkjum. Það þekkir hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir mjög vel enda mjög vel að sér í þessum fræðum öllum.

Ég held að samkvæmt könnun sem var gerð á vegum Krabbameinsfélagsins annars vegar og félagsvísindadeildar Háskóla Íslands hins vegar hafi þessi tala legið einhvers staðar þarna, um fimmtung. Nú bendir hv. þingmaður réttilega á að verið er að auka þarna í. Ég hélt að við ætluðum öll að sameinast um að fara í hina áttina.

Sjálfstæðisflokkurinn talar mikið um nauðsyn þess að lækka skatta, hann hamast á því, að lækka skatta. En á sama tíma eykur hann þjónustugjöld og hann eykur nefskattana, og hvað þýðir það? Það þýðir aukið ranglæti vegna þess að skattar lúta öðrum lögmálum, skattþrepum og skattleysismörkum, ýmiss konar afsláttarkerfum og öðru slíku, en nefskattarnir gera það ekki eða miklu, miklu síður. Síðasta dæmið, sem ég held að eigi eftir að verða frægt en þó aldrei útflutningsvara, náttúrupassi hæstv. ráðherra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, fyrirfinnst hvergi á byggðu bóli. Hann gengur náttúrlega einna lengst í þá veru, að spyrja hvorki um stöðu fólks né aðstæður að öðru leyti, heldur bara rukka á nefið (Forseti hringir.) eða augun fyrir að leyfa sér að horfa á Herðubreið.