144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Fyrir þessa atkvæðagreiðslu hefur fjárlagafrumvarpið tekið nokkrum breytingum. Ég vil í fyrsta lagi þakka fjárlaganefndinni fyrir góða samvinnu um alla meginþætti þeirra breytinga sem hér verða greidd atkvæði um. Það sem er ánægjulegt er að helstu tekjustofnar ríkisins eru að taka við sér, við sjáum það á tekjuspánni fyrir næsta ár. Það hefur aukið svigrúm okkar milli umræðna til að styðja enn frekar við innviðauppbyggingu.

Þessa sér stað í auknum framlögum til skóla, þessa sér stað í auknum framlögum í heilbrigðiskerfið. Við erum með fjárheimildir fyrir Landspítalann sem eru rétt undir 50 milljörðum og fjárheimildir Landspítalans eru þannig orðnar þær hæstu í sögunni. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er alveg skýr, hún er að styðja innviðauppbyggingu í landinu og auka við tryggingu í velferðarkerfinu á sama tíma og menn reka hér ábyrg ríkisfjármál og (Forseti hringir.) fjárlagafrumvarpið fer hér um þingið hallalaust sem er gríðarlega mikilvægt. Og skuldahlutföllin halda áfram að batna.