144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um hluta af breytingartillögu okkar í stjórnarandstöðunni um aukin framlög til Ríkisútvarpsins. Eins og ég rakti áðan í ræðu um atkvæðagreiðsluna hefur myndast um það þverpólitísk samstaða í stjórn Ríkisútvarpsins að kalla eftir því að útvarpsgjaldið verði óbreytt og renni óskipt til Ríkisútvarpsins. Það liggur líka fyrir það mat stofnunarinnar og nýrra stjórnenda hennar að ekki sé hægt að sinna almannaskylduhlutverki stofnunarinnar eins og það er skilgreint í lögum að óbreyttri fjárveitingu. Það er því nauðsynlegt að auka fjárveitinguna eða fyrir stjórnarmeirihlutann að axla þá ábyrgð að segja hvað eigi að leggja af í starfsemi Ríkisútvarpsins. Það er ekki hægt að ganga fram eins og stjórnarmeirihlutinn virðist ráðinn í að gera, að skerða fjárveitingar til Ríkisútvarpsins en vilja ekki horfast í augu við það að ekki er hægt að veita (Forseti hringir.) fullnægjandi almannaþjónustu samkvæmt lögum fyrir þær fjárveitingar.