144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að það sé gefið aðeins í í fjárveitingum til háskólans út af fjölgun nemenda í háskólakerfinu, en það er ekki nóg að gert. Þess vegna vorum við á gula takkanum í þeim liðum hér áðan. Síðan eru bara vissir þættir í háskólastarfseminni í landinu að gleymast. Annars vegar er það samstarfsnet háskólanna, sem við leggjum til að settur verði peningur í, það er mjög mikilvægur þáttur í háskólastarfseminni, og svo er það Listaháskólinn.

Listaháskólinn er dreifður hér um allan bæ og það er verið að kenna í heilsuspillandi skúrum. Hann er að hluta til upp á náð annarra kominn um það hvort hann geti fengið einhvers konar afslátt í leigu í algjörlega ófullnægjandi húsnæði sem hann er í. Einu sinni voru mikil áform um að koma Listaháskólanum í almennilegt skjól í bókstaflegri merkingu. Þau hafa bara gleymst og við leggjum hér til að sú vinna sé endurvakin og settar verði 40 milljónir í það til að reyna að koma þessu aftur af stað.

Við þurfum auðvitað, ef við ætlum að vera almennilegt samfélag, að eiga flottan listaháskóla.