144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Eins og öllum ætti að vera ljóst í dag vill yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna forgangsraða í heilbrigðiskerfið. Öllum ætti líka að vera ljóst, alla vega samkvæmt hæstv. heilbrigðisráðherra, að skilningurinn á grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu er sá að menn eigi að geta sótt sér heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Staðan er bara ekki slík. Menn neita sér um heilbrigðisþjónustu á Íslandi vegna efnahags.

Ekki er þar um að ræða nokkra aðila eða nokkur prósent landsmanna, þetta eru tugprósent sem neita sér um læknisþjónustu. Í svoleiðis kringumstæðum þurfum við að fara að spyrja okkur: Hver er raunverulega grunnþjónustan? Ætlum við að standa við þetta með hárri skattheimtu á Íslandi? Ætlum við að standa við að forgangsraða þessum sköttum þannig að fólk geti sótt sér heilbrigðisþjónustu óháð efnahag?