144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:14]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þetta ber svo brátt að. Ég vona að ég sé með rétta atkvæðaskýringu við liðinn Ríkisstjórn. Ég vil vekja athygli á því að þessi fjárlagaliður hefur vaxið nokkuð mikið, um 10% nú á milli ára og frá árinu 2012 um ein 34%.

Mér finnst svolítið merkilegt að heyra hér talað um aðhald og aga í ríkisfjármálum á sama tíma og ein lítil ríkisstjórn, reyndar með heilan her aðstoðarmanna, getur ekki haldið sig á réttri braut og gefur virkilega mikið í. Mér fyndist rétt að ríkisstjórnin færi fram með góðu fordæmi, hún gerir kröfur á ríkisstofnanir og kröfur um aga og aðhald og að menn haldi sig innan fjárheimilda en eykur síðan framlögin til sín jafnt og þétt með hverju árinu sem líður. Mér finnst þetta ekki til eftirbreytni og geri athugasemdir við það.