144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Að sjálfsögðu vekur það athygli að hæstv. forsætisráðherra er fjarverandi við aðalatkvæðagreiðsluna um mikilvægasta mál ríkisstjórnarinnar og er ekkert að því að á það sé bent.

Ég tel þó að æpandi fjarvera hæstv. ráðherra almennt í þessari umræðu hafi verið meira ámælisverð. Ég hef til dæmis ítrekað óskað eftir því að fjármála- og efnahagsráðherra kæmi einhvern tíma þó ekki væri nema í einn til tvo klukkutíma til umræðunnar þannig að hægt væri að bera undir hann spurningar, ég bar það fram að honum fjarverandi. Hæstv. ráðherra mætti aldrei og ég fékk aldrei nein svör og það gagnrýni ég.

Hins vegar er rétt að upplýsa að það er auðvitað ekki einsdæmi að forsætisráðherra lýðveldisins sé fjarverandi við atkvæðagreiðslu um fjárlög sinnar eigin ríkisstjórnar. Það gerðist til dæmis á 10. áratug síðustu aldar að þáverandi forsætisráðherra var í burtu og vakti það athygli. En hann hafði það sér til málsbóta að hann var að eigin mati að sinna mjög mikilvægu verkefni hér úti í bæ. Hann var að lesa upp úr hugðarverkum sínum á veitingahúsinu Gráa kettinum. [Hlátur í þingsal.]