144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að fjalla áfram um málefni Ríkisútvarpsins. Í Morgunblaðinu í dag ritar formaður stjórnar Ríkisútvarpsins grein, lögmaðurinn Ingvi Hrafn Óskarsson, samflokksmaður hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Yfirskrift greinarinnar er: Rökþrot þingmanns? Þar svarar hann hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem á dögunum krafði Ríkisútvarpið um afsökunarbeiðni. Stjórnarformaður RÚV, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Ríkisútvarpsins, segir þingmanninn hafa sett fram hæpnar fullyrðingar um fjármál RÚV að undanförnu. Meðal annars segir formaður stjórnar Ríkisútvarpsins, með leyfi forseta:

„Vandinn er hins vegar sá að á undanförnum vikum hefur Guðlaugur ítrekað farið með staðlausa stafi um fjármál Ríkisútvarpsins og beitt fyrir sig útúrsnúningum …“

Já, það er djúpt tekið í árinni hjá fulltrúa hv. þingmanns í stjórn Ríkisútvarpsins. Það er með ólíkindum hvernig hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur afvegaleitt umræðuna um Ríkisútvarpið undanfarið. Til hvers? Til að fela vondan málstað, tel ég. Mér finnst kominn tími til að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson biðji Ríkisútvarpið og rétt kjörna stjórn þess af fulltrúum okkar á Alþingi, okkur fulltrúum þjóðarinnar, afsökunar á útúrsnúningum sínum um fjármál RÚV til þess að fela þann mikla niðurskurð sem núverandi stjórnvöld ætla að beita Ríkisútvarpið. Það er ekki falleg afmælisgjöf sem Ríkisútvarpið fær á næsta ári þegar það verður 85 ára, (Forseti hringir.) að fá í afmælisgjöf þann gífurlega mikla niðurskurð sem á eftir að gjörbreyta hlutverki Ríkisútvarpsins.