144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (frh.):

Hæstv. forseti. Ég held þá áfram máli mínu þar sem frá var horfið. Ég var að tala um þau áhrif sem annars vegar hækkun á virðisaukaskatti á matvæli hefur og hins vegar niðurfelling á vörugjöldum á sykruðum matvælum. Í hinum fullkomna heimi ætti einstaklingurinn að geta ráðið því alveg sjálfur hvað hann borðar en ég tel að í hinum harða veruleika sé það ekki alltaf val því að fólk þarf að haga matarinnkaupum sínum eftir fjárhag og ef hollu matvælin hækka í verði meðan hin óhollari og sykruðu lækka í verði er ekki val að velja ódýrari matvælin heldur hreinlega nauðsyn þar sem við þurfum ákveðið margar hitaeiningar til þess að lifa af og við þurfum að seðja magann.

Að lokum vil ég koma aðeins inn á lýðheilsusjónarmiðin. Ég held að flestir séu sammála um að sykur sé óhollur fyrir okkur, í það minnsta mikil neysla á honum. Sjúkdómar tengdir of mikilli sykurneyslu, svo sem offita og sykursýki, eru meðal alvarlegustu lífsstílssjúkdóma samtímans og verða það einnig í framtíðinni sem mun svo aftur hafa áhrif inn í heilbrigðiskerfið okkar og leiða til aukins kostnaðar þar. Mér finnst að í því ljósi sé alveg vert að íhuga hvort við eigum að setja háan skatt á sykur og sjá hvort það hafi ekki áhrif til þess að draga úr sykurneyslu fólks. Mér finnst mikilvægt að við sem samfélag tökum á afleiðingum neyslu á óhollum mat inn í framtíðina. Líkt og ég sagði í upphafi tel ég þessa tillögu um hækkun á virðisaukaskatti annars vegar og niðurfellingu vörugjalda hins vegar hafa samanlagt slæm áhrif á samfélagið okkar þegar við lítum á heildarmyndina og að það muni leiða til þess að ójöfnuður aukist. Ávinningurinn af þessu frumvarpi mun skila sér til þeirra sem hafa mestar tekjur, þeirra sem hafa það nú þegar best, en hins vegar gera þeim sem hafa lítið á milli handanna enn erfiðara fyrir að vera þátttakendur í samfélaginu, hvort sem er í því að geta borðað hollan mat eða þegar kemur að því að njóta menningar og sinna öðru en brýnustu lífsnauðsynjum. Þess vegna tel ég þetta frumvarp ekki til bóta fyrir okkur, ekki þegar heildarmyndin er skoðuð.