144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:58]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur farið fram dómsmál, ef ég man það rétt, sem snerist akkúrat um þessa spurningu um auðlegðarskattinn og eignarréttinn. Var það ekki þannig? Man ég það ekki rétt? Hver var niðurstaðan þar? Hv. þingmaður hefði kannski átt að fara aðeins yfir það hér. Þar kom fram að þessi skattur var ekki talinn ganga gegn þeirri grein.

Þetta snýst ekkert um það. Ákvörðun þessarar ríkisstjórnar um að framlengja hann ekki snýst ekki um það. Hún snýst um forgangsröðun fyrst og fremst. Hún snýst um forgangsröðun nr. eitt, tvö og þrjú og þegar við erum að ræða slíka forgangsröðun er ég einfaldlega ósammála henni vegna þess að ég tel að þeir sem lægstar tekjurnar hafa í landinu megi ekki við þessum hækkunum, ekki heldur millitekjufólk. Þegar ég tala um venjulegt fólk þá er ég að tala um þá sem eru í hinu almenna streði á Íslandi, eru í lágu millitekjuhópunum sem við flest erum í.