144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:07]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var rifjað upp í umræðu um þetta mál áðan ágætt dæmi um vísindin í lýðheilsufræðunum. Fyrir nokkrum árum þótti saltið hinn mesti óvinur. Nú hefur komið í ljós eins og var rakið í umræðum áðan að það er ekki lengur saltið, nú telja menn sykurinn vera versta óvin mannkyns. Ég get bætt um betur og rifjað upp að á einhverjum tímapunkti þótti of hátt kólesteról vera hinn mesti ógnvaldur. Nú er komið í ljós að það er ekki endilega svo.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður mundi láta staðar numið með hugmyndir sínar um neyslustýringu á þann veg að takmarka sykurneyslu með skattlagningu. Er mögulegt að hv. þingmanni þætti það ekki nóg? Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður gæti svarað því hvert yrði þá hennar næsta verk. Neyslu á hverju mundi hv. þingmaður vilja stýra? Ég nefni sem dæmi fitu, rjóma. Er komið tilefni til að skattleggja þær vörur í nafni baráttu við offitu og einhverja sjúkdóma?