144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:10]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki þennan málflutning. Hv. þingmaður er auðvitað að viðurkenna að hún vill stýra neyslu á sykri og gerir það í góðum tilgangi að hennar mati með vísun til lýðheilsusjónarmiða. Og við getum öll verið sammála um það að sykur í óhóflegu magni er auðvitað hættulegur en það á líka við um fitu eða prótein og ýmsar aðrar vörur. Mér þykir stjórnarandstaðan í þessu máli ætla að leggjast gegn jafnræði í skattheimtu með þessum rökum, ganga þvert gegn leiðbeiningum lýðheilsufræðinga sem hafa undanfarin ár varað við einhliða skyndilausnum til að ráða bót á þeim lýðheilsuvanda sem vissulega er til staðar í vestrænum heimi og er fylgifiskur offitu og ofneyslu almennt.