144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[20:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég sagði reyndar ekki að Seðlabankinn væri hvorki sjálfstæður né trúverðugur, (Gripið fram í.) hann er bæði sjálfstæður og trúverðugur, en þessu gæti hann stefnt í voða með langvinnum taprekstri af viðskiptum sínum við bankana. Eðlilegt er að seðlabankar hafi örlítinn hagnað af viðskiptum sínum við bankana enda taka þeir við fé frá bönkum til ávöxtunar og greiða einhverja vexti á það og lána bönkum og rukka örlítið hærri vexti á lán sín til þeirra. Í venjulegum löndum sem búa við eðlilegt jafnvægi á peningamarkaði skilar þetta seðlabönkum afgangi, hagnaði, sem dugar þeim til að reka sig. Hérna hefur þetta verið öðruvísi alveg frá hruni. Seðlabankinn hefur verið að ávaxta 200 milljarða fyrir bankakerfið en ekki haft neitt á móti, engar tekjur á móti frá bankakerfinu. Það er tap af því sem nemur núna nokkur hundruð milljónum á mánuði og hefur verið alveg frá hruni, mörg hundruð milljónir á mánuði í tap.

Sá sem hér stendur hefur því ítrekað velt upp þeirri spurningu og spurt stjórnendur Seðlabankans hvort þeir vilji ekki nýta þau meðul sem þeim eru boðin samkvæmt lögum og beita svokallaðri vaxtalausri bindiskyldu, eins og kemur fram í skýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að 71% af öllum seðlabönkum gera. Ég hef ekki enn þá fengið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna Seðlabankinn dregur alla vega ekki úr tapi sínu. Hann gæti hæglega dregið úr því um nokkur hundruð milljónir á mánuði og styrkt þar með rekstrargrundvöll sinn og sjálfstæði.

Hins vegar er sjálfstæði seðlabanka ekki hætta búin þó að þeir hafi ekki sérstaka tekjustofna heldur geta þeir prentað peninga og búið þá til til að mæta þeim útgjöldum sem þeir þurfa að mæta. Þannig að ég ítreka þau orð mín að ég tel ekki fjárhagslegu sjálfstæði Seðlabankans hætta búin á nokkurn einasta hátt með frumvarpinu.