144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:39]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Já, það er eins og við þekkjum, ég og hv. þingmaður, að það er mjög flókið að gera breytingar á bótaflokkum almannatrygginga. Talað er um að flókið sé að skilja núverandi kerfi, þá er náttúrlega að sjálfsögðu líka flókið að búa til nýtt og betra kerfi, og á sama tíma sem við höfum líka verið að leggja áherslu á að einfalda kerfið.

Eins og ég fór hér í gegnum er þetta eitt af því sem nefndinni var falið að skoða og ég held að mjög mikilvægt sé að við fáum niðurstöðu hvað þetta varðar. Það eru svo sem aðrar greiðslur líka sem heyra undir almannatryggingar og eru hjá Tryggingastofnun sem við erum raunar bara í byrjunarfasa um endurskoðun hvað það varðar. Og ég held að ég eigi eftir að ræða aðeins við hv. þingmann um umönnunargreiðslur, sem er meðal annars eitthvað sem er mjög mikilvægt að endurskoða líka.

Það sem lífeyrissjóðirnir hafa sagt er að þeir telja að ef farin yrði þessi leið, sem m.a. Öryrkjabandalagið lagði til, að það verði gert óheimilt að líta til greiðslna almannatrygginga við tekjuathugun, þá telja þeir að tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna mundi skerðast, sem sagt versna, (Forseti hringir.) en ég held að það sé samt ástæða til að skoða það betur hvort það sé svo í raun eða ekki.