144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

sáttanefnd í læknadeilunni.

[10:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt, það er mjög mikilsvert að reyna að tryggja stöðugleika. Við höfum sem betur fer séð ánægjulega þróun á síðasta ári í þeim efnum að öðru leyti en því sem lýtur að þessu verkefni sérstaklega. Það er hins vegar engum vafa undirorpið að þrýstingur aðila á vinnumarkaði er verulegur í þeim efnum að kjarabætur til opinberra starfsmanna verði í einhverju samhengi við það sem á almennum vinnumarkaði gerist. Úr þeirri stöðu er erfitt að spila. Ég fagna hins vegar þeirri samstöðu sem í þessum sal ríkir um nauðsyn þess að taka á þeirri stöðu sem upp hefur komið í heilbrigðiskerfinu, sérstaklega því sem lýtur að starfskjörum lækna á Íslandi. Ég þreytist ekki á að halda því fram að nauðsynlegt sé fyrir (Forseti hringir.) Íslendinga, rétt rúmlega 300 þúsund manna þjóð, að leggja (Forseti hringir.) töluvert á sig til að tryggja samkeppnishæfni okkar á þessu sviði (Forseti hringir.) í samanburði við aðrar þjóðir.