144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur svarið. Ég ætla að segja hér að virðisaukaskattskerfið, neysluskatturinn, er ekki gott tekjujöfnunartæki. Það er ekki besta tekjujöfnunartækið. Við getum alveg deilt þeirri skoðun að jöfnuður skiptir máli og af því að hér hefur verið talað um brauðmolakenningu og vitnað í nýútkomna skýrslu OECD kemur þar jafnframt fram að jöfnuður er með besta móti á Íslandi í öllum samanburði.

Það er líka til önnur vísitala, félagsþróunarvísitala eða, með leyfi forseta, „social progress index“ þar sem jöfnuður er mestur á Íslandi í samanburði við Norðurlandaþjóðir. Auðvitað verðum við samt alltaf að setja þessa hluti í samhengi og það er endalaus vinna að tryggja jöfnuð. Tekjuskattskerfið er mun vænlegra kerfi til tekjujöfnunar, ég ætla að taka undir það. Eftir sem áður hefur í þessari vinnu við að skilvirkja virðisaukaskattskerfið verið lögð mikil vinna í að tryggja að allir tekjuhópar komi betur út. Ef það tekst samhliða að efla þennan skattstofn náum við að skila því verkefni sem lagt var af stað með. Allur samanburður bendir til þess. Mikilvægast í þessu er einföldunin í afnámi vörugjalda og ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður sé mér til dæmis sammála um það.