144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og hlý orð í minn garð. Ég hef ekki tök á því í þessu andsvari að leiðrétta allar þær missagnir sem fram komu í þeirri ágætu ræðu, sem var meiri að skemmtanagildi en upplýsingagildi. Ég sé mig þó knúinn til að leiðrétta það sem ég mundi kalla afbökun á ummælum mínum fyrr í þessari umræðu sem laut að veiðigjöldum.

Það sem ég sagði um það var það eitt að veiðigjöldin ásamt breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu hlytu að koma til umræðu á vorþingi. Hv. þingmaður getur flett því upp, ég var ekki að boða hækkun á veiðigjaldi, ég var ekki að boða lækkun á veiðigjaldi, enda er ég ekki í neinni stöðu til þess. Ég gat þess einfaldlega að það liggur fyrir af hálfu núverandi ríkisstjórnar að væntanleg eru frumvörp um þetta.

Varðandi veiðigjaldið að öðru leyti, án þess að ég ætli að fara út í langar umræður um það, þá geta menn bæði deilt um upphæð þess og formið á því, en ég minnist þess að þegar við gengum frá síðustu breytingu á því var flestum ljóst að þar var ekki um að ræða endanlega útfærslu heldur yrði haldið áfram að vinna að endurskoðun á því kerfi til að tryggja að það skilaði þeim tekjum sem það ætti að skila og með þeim hætti að það raskaði ekki stöðu manna í greininni, hvorki innbyrðis né að öðru leyti. Svo að það sé skýrt af minni hálfu þá var ég hvorki að boða hækkun né lækkun á veiðigjaldinu heldur einfaldlega gat ég þess, sem allir svo sem vissu, að væntanleg eru frumvörp um það mál sem munu auðvitað fela í sér einhverja endurskoðun á útfærslu án þess að ég léti nokkuð uppi, enda ekki í stöðu til þess, um hvort það yrði til hækkunar eða lækkunar.