144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[20:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var með ólíkindum að hlusta á lýsingu hv. þingmanns af því með hvaða hætti upplýsingar voru veittar á fundi fjárlaganefndar um Bankasýsluna. Mörg okkar sem hér erum höfum sagt að við viljum fá að vita hver afdrif hennar eru áður en við höldum heim. Ástæðan er mjög einföld, hún er stofnun sem var sett á laggir til þess að véla um eignarhluti ríkisins í fjármálastofnunum og það liggur alveg ljóst fyrir að þar er mörgu ólokið. Ég hef haldið nokkrar ræður um það hvaða hugmyndir ég hef um þetta mál.

Mér finnst ekki koma til greina að skilja við málið á þennan hátt. Það náttúrlega er ekkert annað en subbuskapur í stjórnsýslu að ætla sér það að leggja hugsanlega fram frumvarp um flutning á stofnun eða verkefnum hennar, en það allra síðasta sem mér finnst koma til greina er að það sé tekið inn í fjármálaráðuneytið. Það er engum til góða og allra síst hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Það er gersamlega út í hött að skapa þannig möguleika á hvers kyns tortryggni þegar kemur að því hugsanlega að steypa saman eða selja þessa hluti. Ég vil því nota þetta tækifæri til að þakka hv. þingmanni fyrir að hafa komið fram með þessar upplýsingar. Þær voru á allt annan veg en ég átti von á þegar ég frétti af fundinum sem haldinn var að því er ég taldi sérstaklega í nefndinni til þess að upplýsa um þetta mál.

Hvernig telur hv. þingmaður að þessum málum sé best fyrir komið? Telur hún að það sé hugsanlegt að þetta mál sé í þessum eindögum núna vegna þess að það sé ágreiningur á milli stjórnarflokkanna? Ef svo er vil ég vera í liði með þeim þeirra sem vill halda henni áfram og fagna því að stjórnarandstaðan hefur ákveðið að beita sér fyrir því með breytingartillögu við 3. umr. fjárlaga.